Landsliðskonan Ramune Pekarskyte er gengin í raðir Hauka á ný eftir nokkurra ára dvöl í atvinnumennsku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Haukum.
Þessi öfluga skytta skrifaði undir tveggja ára samning við Hauka sem ætla sér stóra hluti undir stjórn Óskars Ármannssonar á komandi tímabili.
Auk Ramune hafa Jóna Sigríður Halldórsdóttir, María Karlsdóttir og Elín Jóna Þorsteinsdóttir samið við Hafnarfjarðarliðið sem endaði í 5. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili. Haukar töpuðu svo 2-0 fyrir ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Ramune, sem er 34 ára, er fædd í Litháen en fékk íslenskan ríkisborgararétt í júní 2012 og hefur síðan þá leikið með íslenska landsliðinu.
Ramune kom fyrst til Hauka árið 2003 og lék með liðinu í sjö ár við góðan orðstír. Hún hélt svo í atvinnumennsku 2010 og lék með Levanger í Noregi, SönderjyskE í Danmörku og nú síðast með franska liðinu Le Havre.
