Bláa blokkin sigraði þingkosningarnar í Danmörku sem fram fóru í dag. Samkvæmt frétt DR fá hægri flokkarnir 90 þingmenn af þeim 175 sem sitja á danska þinginu, fimm þingmönnum meira en vinstri flokkarnir sem mynda rauðu blokkina. Búið er að telja 95% atkvæða.
Það bendir því allt til þess að Lars Lökke Rasmussen, formaður Venstre, verði forsætisráðherra á ný eftir að hafa verið í minnihluta síðustu fjögur ár.
Í frétt DR segir að Rasmussen eigi Danska þjóðarflokknum mikið að þakka. Hann er nú að verða næststærsti flokkur landsins og Venstre sá þriðji stærsti. Flokkur Helle Thorning-Schmidt, fráfarandi forsætisráðherra, Sósíaldemókratar, er enn stærsti flokkurinn á þingi.
Danski þjóðarflokkurinn bætir við sig, samkvæmt nýjustu tölum, 15 þingmönnum en Venstre tapar 13 þingmönnum. Það er því greinilegt að innflytjendamálin hafa haft afgerandi áhrif á niðurstöður kosninganna.
Stjórnin fallin í Danmörku

Tengdar fréttir

Úrslitin í Danmörku ráðast á síðustu atkvæðunum
Hægri blokkinn vinnur nauman sigur samkvæmt útgönguspá Danska sjónvarpsins. Atkvæði Færeyinga og Grænlendinga gætu ráðið úrslitum.