Sport

Hrafnhildur: Bjóst ekki við að ná Ólympíulágmarkinu strax

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafnhildur nældi í fern gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum.
Hrafnhildur nældi í fern gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum. vísir/ernir
Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur átt frábæra viku á Smáþjóðaleikunum en í gær vann hún fjórðu gullverðlaun sín í leikunum af fernum mögulegum, er hún bar sigur úr býtum í 400 m fjórsundi.

Hún bætti Íslandsmet í öllum fjórum greinunum (100 og 200 m bringusundi, 200 og 400 m fjórsundi) og náði Ólympíulágmarki í tveimur þeirra – 200 m fjórsundi og 200 m bringusundi.

„Ég setti mér ekki endilega það markmið að ná lágmarki fyrir Ríó á þessu móti og var frekar að búast við því að ná því á HM í ágúst,“ sagði Hrafnhildur í samtali við Fréttablaðið í gær.

Það kom mörgum á óvart að hún næði Ólympíulágmarkinu í 200 m fjórsundi, sem var fyrsta keppnisgreinin hennar á þriðjudaginn. Ekki síst henni sjálfri.

„Ég vissi ekki að ég hefði náð lágmarkinu fyrr en síðar. Ég var bara ekkert að pæla í því enda er þetta aukagrein hjá mér. Þetta kom mér algjörlega á óvart og er mjög skemmtilegt. Það sýnir að ég er greinilega í góðu formi.“

Hrafnhildur heldur í næstu viku aftur út til Bandaríkjanna þar sem hún æfir í háskóla sínum í Flórída. Þaðan mun hún útskrifast um áramótin en stefnir að því að klára veturinn úti og einbeita sér að því að byggja sig upp fyrir leikana í Ríó næsta sumar.

Hennar stærsta verkefni í sumar verður HM í sundi, sem verður í Kazan í Rússlandi í byrjun ágúst. Bestu tímar Hrafnhildar gefa til kynna að hún á möguleika á að blanda sér í baráttu þeirra bestu. „Markmiðið er að komast allavega í undanúrslit og þá er aldrei að vita hvað gerist. Ég vil komast sem lengst, auðvitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×