Íslenski boltinn

Dómarinn ruglaðist og tók markið af Fanndísi | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir.
Fanndís Friðriksdóttir. Vísir/Valli
Breiðablik er á toppnum í Pepsi-deild kvenna eftir 5-1 útisigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum í gær. Blikastúlkur hafa sex stig og tíu mörk eftir tvo leiki.

Fanndís Friðriksdóttir var bæði með mark og stoðsendingu í þessum leik alveg eins og í fyrsta leiknum eða það er hjá öllum nema dómara leiksins.

Á leiksskýrslu dómara er það nefnilega varnarmaðurinn Guðrún Arnardóttir sem er skráð fyrir fjórða marki Blika í þessum leik.

Það mark skorar Fanndís hinsvegar á mjög laglegan hátt eftir að hafa fengið fyrirgjöf frá Ástu Eir Árnadóttur af hægri kantinum.

Fanndís tók boltann laglega niður og afgreiddi hann síðan í fjærhornið af stönginni og inn. Mjög laglega gert eins og hin tvö mörkin hennar í fyrstu umferðinni.

Sjá einnig:Fanndís með Messi-tilþrif í gær

Vísir og Sporttv sýndu leik Aftureldingar og Breiðabliks beint í gær og Sporttv-menn hafa nú tekið saman mörkin úr leiknum í eitt myndband sem sjá má með því að smella hér.

Mark Fanndísar kemur efir tvær og hálfa mínútu og það væri kannski gott ef einhver gæti bent dómara leiksins á að kíkja á það svo að Fanndís fái nú markið skráð á sig á leiksskýrslunni á úrslitasíðu KSÍ.

Hér fyrir neðan má sjá leiksskýrsluna eftir að dómarinn hafði staðfest hana í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×