Erlent

Grafir rúmlega hundrað flóttamanna finnast í Malasíu

Bjarki Ármannsson skrifar
Mikill viðbúnaður er á svæðinu þar sem grafirnar fundust.
Mikill viðbúnaður er á svæðinu þar sem grafirnar fundust. Vísir/EPA
Lögregla í Malasíu hefur fundið 139 leiði nálægt landamærum Taílands sem talin eru geyma lík flóttamanna. Smyglarar hafa undanfarin ár reynt að koma flóttamönnum yfir landamærin til Malasíu á þessu svæði en skammt frá fundust tjaldbúðir og margar grafir fyrr í mánuðinum.

BBC hefur eftir Khalíd Abú Bakar, ríkislögreglustjóra Malasíu, að sum leiðanna gætu innihaldið fleiri en eitt lík. Yfirvöld rannsaka um þessar mundir hvort líkin séu af fórnarlömbum mansals.

Eftir fundinn fyrr í mánuðinum hafa taílensk yfirvöld lagt meiri áherslu á að fylgjast með leiðum smyglara við landamærin. Þetta hefur orðið til þess að smyglararnir reyna frekar að koma flóttafólkinu sjóleiðis á áfangastað.

Það hefur hins vegar haft hörmulegar afleiðingar. Þúsundir flóttamanna hafa orðið strand á hafi úti eftir að stjórnvöld í Malasíu neituðu að taka á móti þeim og vísuðu þeim frá landi.

Flestir flóttamannanna eru svokallaðir Rohingya-múslimar sem flýja ofsóknir í heimaríki sínu, Mjanmar. Einnig eru margir Bangladessar meðal flóttamannanna, en þeir leita atvinnu í Malasíu.


Tengdar fréttir

Átta þúsund á hrakningi við Indónesíu

Nærri átta hundruð flóttamönnum var bjargað á land í Indónesíu í gær. Fólkið er á flótta frá Búrma, flestir múslimar sem sætt hafa ofsóknum af hálfu búddista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×