David Burke, varaforseti verkfræðideildar Google, sagði á ráðstefnunni að fyrirtækið hafi fylgst með hvað símaframleiðendurnir hafi verið að bæta við stýrikerfið. Google hefur fært margar af þeim viðbótum inn í kjarna Android.
Samkvæmt The Verge hefur Google gert miklar breytingar á vafra sínum Chrome. Meðal annars verður notendum og forriturum boðið upp á notkunarmöguleikann Chrome Custom Tabs gerir forriturum kleift að setja heimasíður beint inn í smáforrit sín, svo notendur þurfi ekki að flakka á milli forrita til að skoða efnið.
Auk þessi er nýja stýrikerfið sagt bæta rafmagnsnýtingu snjalltækja. Nýtt forrit sem heitir Doze, notar hreyfiskynjara til þess að sjá hvort tækið er í notkun og ef ekki, þá slekkur forritið á öðrum forritum sem keyra í bakgrunninum.
Burke sagði að Doze hefði tvöfaldað endingu rafhlöðu í Nexus 9 spjaldtölvu.
Google kynnti einnig forritið Android@Home, sem er nokkurskonar samskiptamiðstöð allra snjalltækja á heimilum notenda. Þannig væri mögulega hægt að stýra öllum snjalltækjum heimilisins úr símum eða spjaldtölvum.
Google Photos er ný þjónusta fyrirtækisins sem ætlað er að halda utan um allar ljósmyndir notenda. Þar verður notendum boðið að hafa óendanlegt pláss til að geyma og skipuleggja myndasöfn sín á netinu. Upprunalega var Photos hluti af Google+ en sá samfélagsmiðill er talinn misheppnaður þar sem mun færri skráðu sig en Google vonaðist til.