Íslenski boltinn

Bjarni vann fyrsta heimaleikinn fyrir 18 árum en enginn hefur unnið síðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson. Vísir/Vilhelm
Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV, tapaði fyrsta heimaleiknum sem þjálfari Eyjaliðsins í gær þegar Stjörnumenn sóttu þrjú stig til Vestmannaeyja.

Stjarnan vann þá 2-0 sigur og Eyjamenn eru því bæði markalausir og stigalausir í fyrstu tveimur leikjum sínum í Pepsi-deildinni í sumar.

Jóhannes Harðarson varð um leið sjöundi þjálfari ÍBV-liðsins í röð sem nær ekki að vinna sinn fyrsta heimaleik í úrvalsdeildinni af þeim þjálfurum liðsins sem hafa ekki verið frá Vestmannaeyjum.

Eyjamennirnir sem hafa tekið við þjálfun ÍBV-liðsins hafa hinsvegar byrjað vel síðustu ár. ÍBV vann þannig 4-1 sigur á Breiðaliki í fyrsta leiknum undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar og bæði 2-1 sigur á Grindavík í ágúst 2006 og 4-1 sigur á ÍA í september 2002 í fyrstu heimaleiknum undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Heimir tók tvisvar við ÍBV-liðinu.

Síðasti þjálfarinn til að vinna fyrsta heimaleikinn í Eyjum var Bjarni Jóhannsson sumarið 1997 en ÍBV vann 3-1 sigur á þá ríkjandi Íslandsmeisturum ÍA í fyrsta heimaleiknum á Íslandsmeistaraárinu 1997. Atli Eðvaldsson vann líka eftirminnilegan sigur á Val tveimur árum áður.

Fyrstu heimaleikir þjálfara ÍBV sem eru ekki frá Eyjum (Frá 1993):

Jóhannes Harðarson 2015: 0-2 tap fyrir Stjörnunni

Sigurður Ragnar Eyjólfsson 2014: 1-2 tap fyrir Stjörnunni

Magnús Gylfason 2012: 0-0 jafntefli við Breiðablik

Guðlaugur Baldursson 2005: 2-3 tap fyrir Keflavik

Magnús Gylfason 2003: 2-3 tap fyrir KA

Njáll Eiðsson 2001: 0-0 jafntefli við FH

Kristinn R. Jónsson 2000: 2-2 jafntefli við Fylki

Bjarni Jóhannsson 1997: 3-1 sigur á ÍA

Atli Eðvaldsson 1995: 8-1 sigur á Val

Jóhannes Atlason 1993: 1-2 tap fyrir Fram




Fleiri fréttir

Sjá meira


×