FIFA er nú að velta því fyrir sér að fjölga þjóðum í úrslitakeppni HM upp í 64 lið. Næsta HM fer fram næsta sumar og þar munu 48 þjóðir taka þátt en 32 þjóðir voru á síðasta heimsmeistaramóti 2022.
Þetta hefur verið í umræðunni eftir að tillaga kom frá stjórnarmanni frá Úrúgvæ á ársþingi Alþjóða knattspyrnusambandsins. ESPN segir frá.
Það væri þá verið að fjölga þjóðum um sextán á tveimur heimsmeistaramótum í röð og það án þess að reynsla sé komin á 48 þjóða heimsmeistarakeppni.
„Þessi tillaga kom mér jafnvel meira á óvart en ykkur,“ sagði Aleksander Ceferin á blaðamannafundi eftir ársþing UEFA í Belgrad í Serbíu.
„Ég tel að þetta sé slæm hugmynd,“ sagði Ceferin sem er líka varaforseti FIFA. Gianni Infantino, forseti FIFA, vill fjölga þátttökuþjóðum enn meira, og er að reyna að koma þessu í gegn.
Svo margar þátttökuþjóðir hefðu auðvitað það í för mér sér að gæðin myndu minnka og að það þyrfti einnig að koma fyrir 128 leikjum á rúmum mánuði.
„Þetta er ekki góð hugmynd fyrir sjálfa heimsmeistarakeppnina og þetta er heldur ekki gott fyrir undankeppnina,“ sagði Ceferin.
UEFA er með sextán sæti á HM 2026 og það hefur kallað á breytta undankeppni. Nú eru riðlarnir tólf og sumar þjóðir spila færri leiki en öll undankeppnin fer fram í ár.
Spánn og Portúgal halda HM 2030 ásamt Marokkó en Suðurameríkuþjóðirnar Argentína, Paragvæ og Úrúgvæ hýsa einn leik í byrjun móts til að halda upp á að það eru hundrað ár liðin frá fyrstu heimsmeistarakeppninni sem fór fram í Úrúgvæ 1930.
„Það er skrýtið að við fengum ekki að vita neitt um þessa tillögu áður en hún kom fyrir þingið. Ég veit ekki hvaðan hún kom,“ sagði Ceferin.