Í minnisblaði sem forstjóri Landspítalans sendi Landlækni í gær segir meðal annars að framkvæmd verkfallsins hafi að mestu farið fram í ágætri samvinnu við þau stéttarfélög sem um ræðir nema við félag geislafræðinga: „Virðist sem fulltrúi félagsins í undanþágunefnd starfi með öðrum hætti en aðrir sem í slíkum nefndum starfa.“

„Heilbrigðisstéttir bera ríka ábyrgð. Auðvitað á fólk rétt á því að fara í verkfall en við verðum líka að láta sjúklinginn njóta vafans," segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Landlæknir er sömu skoðunar og Páll. Hann lýsir þessu sem ófremdarástandi og að hann hafi aldrei kynnst öðru eins á löngum starfsferli. Hann segir að stöðva verði verkfallið með öllum ráðum og sé lagasetning ekki undanskilin.
Viltu að lög verði sett á þetta verkfall? „Já, þessu verður að ljúka, það er ekki hægt að halda þessu áfram lengur,“ segir Birgir Jakobsson, landlæknir.

Birgir segist virða rétt fólks til verkfallsaðgerða en þrátt fyrir það „þá ber heilbrigðisstéttum alltaf að setja öryggi sjúklinga í fyrsta rúmið, alltaf hreint, hvað sem á hverju gengur. Mér finnst að það sé verið að hliðra á því núna af sumum stéttarfélögunum og það er mjög alvarlegt að mínu mati.“
Af því leiðir að endurskoða verður með hvaða hætti heilbrigðisstarfsmenn geti bætt kjör sín. „Þegar þessi orusta er yfirstaðin þá held ég að það verði að setjast niður og athuga hvernig við eigum að haga þessum málum í framtíðinni því þetta er ekki hægt,“ segir Birgir.