Íslenski boltinn

Spá Fréttablaðsins og Vísis: Breiðablik hafnar í 4. sæti

Breiðablik vann Lengjubikarinn og Fótbolti.net-mótið.
Breiðablik vann Lengjubikarinn og Fótbolti.net-mótið. vísir/andri marinó
Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með árlegri spá sinni. Íslandsmótið hefst 3. maí og þar á Stjarnan titil að verja eftir að verða meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Fréttablaðið og Vísir spáir Breiðabliki fjórða sæti, en það hafnaði í sjöunda sæti í fyrra og hefði komist í Evrópukeppni með sigri í síðustu tveimur leikjum liðsins. Blikar urðu bikarmeistarar í fyrsta skipti árið 2009 og Íslandsmeistarar í fyrsta skipti ári síðar. Þeir voru síðast í Evrópu fyrir tveimur árum og stefna þangað aftir.

Breiðablik fékk nýjan þjálfara síðasta haust þegar Guðmundur Benediktsson lét af störfum. Nýir tímar eru hafnir í Kópavoginum undir stjórn Arnars Grétarssonar sem er að þjálfa lið í fyrsta skipti. Hann hefur þó mikla reynslu af stjórnunarstöðum í fótboltanum eftir að vera yfirmaður knattspyrnumála bæði hjá AEK og Club Brugge. Þá á hann að baki fjölda ára í atvinnumennsku og 71 landsleik.

LÍKLEGT BYRJUNARLIÐ
graf/garðar
EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 4 stjörnur (af 5)

Sóknin: 3 stjörnur

Þjálfarinn: 2 stjörnur

Breiddin: 3 stjörnur

Liðsstyrkurinn: 2 stjörnur

Hefðin: 4 stjörnur

Gunnleifur Gunnleifsson, Kristinn Jónsson og Ellert Hreinsson.vísir/pjetur
ÞRÍR SEM BREIÐABLIK TREYSTIR Á

Gunnleifur Gunnleifsson: Átti ekki gott tímabil í fyrra og veist það best sjálfur. Hefur litið virkilega vel út á undirbúningstímabilinu og virðist ætla vera einn af allra bestu markvörðum deildarinnar á ný. Er með sterka varnarlínu fyrir framan sig sem hann nær vel saman við. Það eru þó mistökin sem hann þarf að fækka frá í fyrra.

Kristinn Jónsson: Vinstri bakvörðurinn hefur verið algjörlega frábær á undirbúningstímabilinu og er alls óvíst að hann klári tímabilið hér heima miðað við hvernig standi hann er í. Ótrúlega góður með boltann, fljótur og með frábærar fyrirgjafir. Kemur inn í deildina í sumar sem langbesti bakvörðurinn. Sterkur í vörn en afl í sóknarleiknum.

Ellert Hreinsson: Lengi hefur verið beðið eftir því að Ellert springi almennilega út sem markaskorari, en hann hefur aldrei skorað meira en sex mörk í efstu deild. Stór ástæða þess hefur þó verið að hann var lengi í háskóla og kom því seint og fór snemma. Ellert hefur raðað inn mörkum á undirbúningstímabilinu og virðist klárlega vera oddurinn á spjótinu í flottum sóknarleik Breiðabliks. Ellert gæti verið í baráttunni um markakóngstitilinn í sumar.

Arnþór Ari hefur verið heitur í vetur og vor.mynd/blikar.is
Nýstirnið: Arnþór Ari Atlason

Miðjumaðurinn öflugi úr Þrótti náði aldrei þeim hæðum sem Framarar vonuðust eftir í fyrra, en það sama má svo sem segja um Framliðið sem auðvitað féll.

Arnór Ari hefur verið frábær á undirbúningstímabilinu þar sem hann spilar fremstur á miðju. Hann er að leggja upp og skora, en hefur þó aðeins dalað í síðustu leikjum. Hann var líka flottur á síðasta undirbúningstímabili en tókst ekki að taka það með sér inn í deildina. Haldi Arnþór Ari áfram á sömu braut gæti hann orðið einn af bestu ungu leikmönnum deildarinnar.

Ismar Tandir hefur ekki staðið sig nógu vel.vísir/ernir
MARKAÐURINN

Komnir:

Arnþór Ari Atlason frá Fram

Ismar Tandir frá Red Bull Salzburg

Kári Ársælsson frá BÍ/Bolungarvík

Ósvald Jarl Traustason frá Fram

Farnir:

Árni Vilhjálmsson til Lilleström

Elfar Árni Aðalsteinsson í KA

Finnur Orri Margeirsson í FH

Gísli Páll Helgason í Þór

Elvar Páll Sigurðsson í Leikni

Jordan Halsman

Stefán Þór Pálsson í Víking

Tómas Óli Garðarsson í Val

Blikar hafa ekki styrkt sig mikið og sérstaklega ekki þegar horft er til leikmannanna sem það hefur misst. Tveir algjörir lykilmenn eru farnir í fyrirliðanum Finni Orra Margeirssyni og framherjanum Árna Vilhjálmssyni sem skoraði grimmt síðustu tvö sumur.

Elfar Árni Aðalsteinsson er einnig farinn sem og tveir uppaldir framherjar; Stefán Þór Pálsson og Elvar Páll Sigurðsson. Blikar héldu að þeir væru að fá Kristján Flóka Finnbogason áður en FH stal honum fyrir framan nefið á þeim. Fjórir framherjar eru farnir og aðeins einn kominn, Ismar Tandir, sem hefur engan heillað.

Eins og oft áður hafa Blikar leitað inn á við, en Davíð Kristján Ólafsson og Höskuldur Gunnlaugsson fá stærra hlutverk í liðinu og spila á köntunum. Þá fengu Blikar Arnþór Ara Atlason fá Fram sem hefur litið stórvel út í vor.

Breiðablik er að leita að frekari liðsstyrk sem er eðlilegt enda ekki hægt að segja liðið hafi gert flotta hluti á markaðnum. Þeir fóru sérstaklega illa út úr framherjamálunum.

HVAÐ SEGIR SÉRFRÆÐINGURINN?

Óskar Hrafn Þorvaldsson er íþróttastjóri 365 og einn af sérfræðingum Vísis í spánni fyrir Pepsi-deildina. Hann spilaði 71 leik fyrir KR í efstu deild og varð bikarmeistari með liðinu árið 1994. Hann lék einnig með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni og á að baki þrjá landsleiki fyrir A-landslið Íslands auk 30 leikja fyrir yngri landsliðin.

Höskuldur Gunnlaugsson er efnilegur kantmaður sem fær mikið að spila í sumar.vísir/ernir
STYRKLEIKAR LIÐSINS:

Þar sem fáir leikmenn komu til liðsins hefur Arnar getað spilað á sínu liði frekar lengi. Liðið er nokkuð fastmótað, spilar virkilega glæsilegan fótbolta og er búið að vinna tvo bikara. Varnarlínan virkar mjög sterk og liðið er með besta bakvarðaparið í deildinni.

VEIKLEIKAR LIÐSINS:

Breiddin er ekki mikil og þá er mikil ábyrgð lögð á herðar  ungra manna (Davíðs Kristjáns, Höskuldar og Arnþórs Ara) í framlínunni. Ef Ellert skorar ekki mörkin er erfitt að sjá hver ætlar að gera það fyrir Breiðablik og svo er spurning hvort Blikar séu nógu vel skipaðir í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson var gerður að fyrirliða Breiðabliks.vísir/andri marinó
BINNI BJARTSÝNI SEGIR:

Addi Grétars kominn heim og lætur liðið spila sambabolta. Kiddi Jóns mun skora meira úr bakvarðastöðunni en margir framherjar í deildinni og Ellert Hreinsson hefur aldrei litið betur út. Gulli Gull lítur aftur út eins og landsliðsmarkvörður og við erum nú þegar búnir að vinna tvo bikara. Við verðum í baráttu um titilinn með smá heppni.

SIGGI SVARTSÝNI SEGIR:

Það eru bara krakkar á miðjunni og enginn til að skora mörkin nema Ellert. Það er ekki hægt að ætlast til þess að Kiddi hlaupi 90 metra með boltann í hverri sókn og skori, hann er varnarmaður! Við verðum aldrei í baráttunni um titilinn með þessa breidd. Ef ungu strákarnir klikka, okkur gengur erfiðlega að skora og við styrkjum okkur ekki meira gætum við alveg misst af Evrópukeppni líka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×