Innlent

Týr aðstoðaði við björgun flóttafólks

Samúel Karl Ólason skrifar
Varðskipið Týr hefur, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, bjargaði um 7.500 manns síðan á föstudag.
Varðskipið Týr hefur, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, bjargaði um 7.500 manns síðan á föstudag. Mynd/LHG
Áhöfnin á varðskipinu Tý aðstoðaði dráttarskip við björgun flóttafólks í gær út af ströndum Líbýu. Þegar nýbúið var að taka flóttafólkið um borð í dráttarskipið kom á vettvang hraðbátur og var skotið úr honum í loftið.

„Áhöfn hraðbátsins skaut nokkrum skotum upp í loftið, að því er virðist í þeim tilgangi að hræða flóttafólkið. Fóru þeir síðan á brott með bát flóttafólksins með sér en flóttamennirnir voru þá allir komnir um borð í dráttarskipið.“ Þetta kemur fram á vef Landhelgisgæslunnar.

Svo virðist sem að mennirnir í hraðbátnum hafi ekki verið ánægðir með björgun flóttafólksins. Þegar þetta átti sér stað var Týr í um sjómílu fjarlægð frá dráttarbátnum. Áhöfnin heyrði skothríðina og fylgdist með atburðarrásinni.

Týr er nú á leið til Taranto á Ítalíu með 342 flóttamenn sem áhöfnin bjargaði fyrr í gær. Yfirleitt er farið með flóttafólk til Sikileyjar, en þar eru allar flóttamannabúðir orðnar yfirfullar.

Á vef gæslunnar segir að Varðskipið Týr hafi, ásamt öðrum skipum og flugvélum á vegum Frontex, bjargað um 7.500 manns síðan á föstudag. Þá hafa ellefu lík flóttamanna fundist á svæðinu, þar af níu frá einum bát sem hvolfdi. Allar aðgerðirnar áttu sér stað um 12 til 60 sjómílur frá strönd Líbýu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×