Íslenski boltinn

Geir komst ekki inn í fyrstu umferð og dró svo framboð sitt til baka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Þorsteinsson komst ekki í framkvæmdastjórn UEFA.
Geir Þorsteinsson komst ekki í framkvæmdastjórn UEFA. vísir/pjetur
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, fékk ekki næga kosningu til að komast í framkvæmdastjórn evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, á ársþingi sambandsins í dag.

Geir bauð sig fram ásamt ellefu öðrum og börðust þeir um sjö sæti. Allar 54 aðildarþjóðir UEFA máttu kjósa sjö í framkvæmdastjórnina og skiluðu allir fulltrúar inn gildum seðlum.

Geir var ekki nálægt því að komast inn í fyrstu umferð en til þess þurfti hann 28 atkvæði. Hann fékk 16 atkvæði og var langt frá þeim sjötta sem flaug inn með vel rúmlega 28 atkvæði.

Þar sem aðeins sex af tólf náðu 28 atkvæðum eða meira þurfti að kjósa á milli þeirra sex sem eftir voru um hver þeirra fengi sjöunda og síðasta sætið.

Áður en sú kosning fór fram dró Geir Þorsteinsson framboð sitt til setu í framkvæmdastjórn UEFA til baka. Michel Platini gerði fundargestum ljóst að ekki væri lengur hægt að kjósa „Herra Þorsteinsson“ og sátu því fimm eftir í baráttunni um síðasta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×