Fótbolti

Stelpurnar okkar spila við heimsmeistarana í hádeginu á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar sem byrjuðu leikinn á móti Bandaríkjunum í gær.
Stelpurnar sem byrjuðu leikinn á móti Bandaríkjunum í gær. Vísir/KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar lokaleik sinn á Algarve-mótinu á morgun þegar liðið mætir Japan í leiknum um níunda sætið.

Leikur Íslands og Japans hefst klukkan 12.15 að íslenskum tíma og fer hann fram á Algarve-vellinum. Þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnusambandsins.

Ísland hafnaði í neðsta sæti síns riðils en var með bestan árangur þeirra þriggja liða sem höfnuðu í neðsta sætinu í sínum riðli. Japan lenti í þriðja sæti í sínum riðli, með lakasta árangur þeirra liða sem lentu í því sæti.  

Íslenska liðið gerði markalaust jafntefli við stórlið Bandaríkjanna í lokaleik riðilsins en hafði áður tapað fyrir bæði Sviss (0-2) og Noregi (0-1). Íslenska liðið á enn eftir að skora mark á mótinu.

Ísland og Japan hafa aldrei áður mæst hjá A landsliðum kvenna en Japanir urðu heimsmeistarar árið 2011 þegar keppnin var haldin í Þýskalandi. Þær japönsku unnu þá Bandaríkin í vítaspyrnukeppni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×