Viðskipti innlent

Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafa tvöfaldast frá 2009

ingvar haraldsson skrifar
Ferðamönnum fjölgaði um 24 prósent hér á landi á síðasta ári.
Ferðamönnum fjölgaði um 24 prósent hér á landi á síðasta ári. vísir/gva
Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafa tvöfaldast frá árinu 2009. Á síðasta ári námu útflutningstekjurnar 303 milljörðum en voru 155 milljarðar árið 2009. Á síðasta ári jukust tekjur ferðaþjónustunnar af útflutningi um 25 milljarða á síðasta ári. Til samanburðar voru útflutningstekjur sjávarútvegsins um 241 milljarður króna árið 2014. Þetta kemur fram í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans.

Útflutningur á þjónustu frá Íslandi var 499 milljarðar króna á síðasta ári og jókst um 14,3 milljarða milli ára eða um 2,9%. Aukningu útflutnings má helst rekja til verulegs vaxtar í sölu ferðaþjónustu til erlendra ferðamanna sem skýrist einna helst af mikilli fjölgun ferðamanna hér á landi að mati Hagfræðideildarinnar.

Þrátt fyrir vöxt útflutningstekna íslensku ferðaþjónustunnar var 1,2% samdráttur útflutningstekjum af farþegaflutningum með flugi á síðasta ári. Að hluta til má rekja þessa þróun til sterkara gengis krónu að mati Hagfræðideildarinnar en gengisvísitala krónunnar var að meðaltali 207 stig á síðasta ári borið saman við 219 stig árið 2013.

Þá varð verulegur tekjusamdráttur af þjónustu tengdum útflutningi álvera. 25 milljarðar samdrátturinn varð í framleiðslutengdri þjónustu á síðasta ári en þjónusta við álverin fellur undir þennan lið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×