Íslenski boltinn

Stjörnuliðið á móti Sviss | Margrét Lára byrjar á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lára Kristín Pedersen, fyrir miðju, fagnar marki með félögum sínum í Stjörnunni.
Lára Kristín Pedersen, fyrir miðju, fagnar marki með félögum sínum í Stjörnunni. Vísir/Valli
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt fyrir fyrsta leik liðsins á Algarve-mótinu í Portúgal og hann treystir mikið á fyrrum og núverandi leikmenn Íslandsmeistara Stjörnunnar.

Ísland hefur leik á Algarve-mótinu 2015 klukkan 15:00 í dag þegar íslensku stelpurnar mæta Sviss í B riðli.  

Sandra Sigurðardóttir, markvörður Stjörnunnar, er í marki Íslands í dag og þá er Stjörnukonan Lára Kristín Pedersen í byrjunarliðinu í sínum fyrsta A-landsleik.

Stjarnan á annars stóran hluta af byrjunarliðinu en auk þriggja Stjörnukvenna (Lára Kristín, Anna María Baldursdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir) í vörninni þá er þar líka Glódís Perla Viggósdóttir sem yfirgaf Garðabæjarliðið eftir síðasta tímabil. Markvörðurinn (Sandra) er eins og áður sagði einnig leikmaður Stjörnunnar.

Á miðjunni eru síðan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (fyrrum leikmaður Stjörnunnar) og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (fyrirliði liðsins sem er á leið til Svíþjóðar á láni).

Stjarnan á því mjög mikið í sjö af ellefu byrjunarliðsleikmönnum íslenska liðsins í dag og það reynir á þær við að verjast hinu léttleikandi svissneska liði.

Margrét Lára Viðarsdóttir er á varamannabekknum í dag en hún er kominn aftur inn í landsliðið eftir eitt og hálft ár í barnseignarfríi. Valskonan Elín Metta Jensen byrjar leikinn í framlínunni.

Byrjunarlið Íslands á móti Sviss í dag:

Markvörður: Sandra Sigurðardóttir

Hægri bakvörður: Anna María Baldursdóttir

Miðverðir: Glódís Perla Viggósdóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir

Vinstri bakvörður: Lára Kristín Pedersen

Varnartengiliðir: Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði

Hægri kantur: Fanndís Friðriksdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Elín Metta Jensen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×