Rússneska stjórnarandstöðuleiðtoganum Alexei Navalny hefur verið sleppt úr fangelsi eftir að hafa afplánað fimmtán daga dóm. Navalny var dæmdur fyrir að hafa dreift bæklingum til að auglýsa fyrirhugaða mótmælagöngu.
Navalny ræddi við blaðamenn eftir að hafa verið sleppt þar sem hann hét því að draga ekki úr baráttu sinni. Vika er nú liðin frá því að Boris Nemtsov, annar leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, var skotinn til bana í miðborg Moskvu.
Mótmælagangan sem fram fór þann 1. mars og Navalny var dæmdur fyrir að auglýsa varð þess í stað ganga til minningar um Nemtsov.
Navalny segir að dómsmálin sem hafa verið höfðuð gegn honum eigi sér pólitískar skýringar.