Viðskipti innlent

Lukkast að láta selinn laða að ferðamennina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Selasetrið á Hvammstanga er orðið eitt helsta aðdráttarafl héraðsins og nú er verið að innrétta stóran veitingastað á efri hæðinni. Það fagnar tíu ára afmæli í ár og óhætt er að segja að það sé að virka vel fyrir samfélagið. Í fyrra komu 20 þúsund gestir og jafnvel núna um hávetur er rennerí af ferðamönnum.

„Já, þetta hefur lukkast mjög vel,” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Selseturs Íslands, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

„Þetta hefur svona orðið til þess að þetta svæði hefur markað sér sérstöðu sem selaskoðunarsvæði, bæði á landi og af sjó. Það hefur skipað stórt hlutverk í því að laða ferðamanninn hingað þessa sex kílómetra sem eru af hringveginum,” segir Unnur.

Selasetrið er á neðri hæðinni, veitingastaðurinn Sjávarborg verður á efri hæðinni.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Prjónastofan Kidka nýtur góðs af selnum við að selja ullarvörur. 

„Menn fara náttúrlega út á Vatnsnes að skoða selina. Svo koma þeir hérna við,” segir Kristinn Karlsson, eigandi og framkvæmdastjóri Kidka. 

„Sumir eru bara að koma til að fá sér ullarpeysu. Þannig að þetta hjálpar allt hvert öðru,” segir Kristinn. 

Og nú þarf að stækka og auka þjónustuna við ferðamenn. Á efri hæð Selasetursins, í húsnæði í eigu Kaupfélags Vestur-Húnvetninga, sem staðið hafði autt i áratugi, er verið að innrétta stóran veitingastað sem taka mun 120 manns í sæti. Ferðaþjónustan á Gauksmýri mun reka staðinn. 

„Það er allavegana mikill ferðamannastraumur hér á Hvammstanga og fyrir Vatnsnes og hér í Húnaþingið,” segir Jóhann Albertsson, ferðaþjónustubóndi á Gauksmýri.

Jóhann Albertsson, ferðaþjónustubóndi á Gauksmýri, í húsnæði nýja veitingahússins á Hvammstanga.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Síðan eru bara sex kílómetrar frá þjóðveginum. Þannig að við vonumst til þess að einhverjir líka leggi lykkju á leið sína og komi hingað út eftir líka,” segir Jóhann.

Fjallað var um samfélagið á Hvammstanga í þættinum „Um land allt" á Stöð 2  í kvöld.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×