Erlent

Semja um þjálfun uppreisnarhópa

Samúel Karl Ólason skrifar
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Vísir/EPA
Eftir nokkurra vikna viðræður hafa embættismenn Tyrklands og Bandaríkjanna komist að samkomulagi um að þjálfa og vopna „hófsama“ uppreisnarhópa í Sýrlandi. Utanríkisráðherra Tyrklands tilkynnti þetta á blaðamannafundi í dag, en Tyrkir vilja þjálfa menn til að berjast bæði gegn öfgahópum eins og ISIS og stjórnvöldum Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

„Þessar sveitir munu berjast gegn Íslamska ríkinu, öðrum hryðjuverkasamtökum og stjórnvöldum,“ sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Samkvæmt yfirvöldum í Bandaríkjunum er vonast til þess að þjálfunin geti hafist í mars og að fyrstu sveitirnar geti byrjað baráttu sína í lok ársins. Fyrsta árið er stefnt að því að þjálfa fimm þúsund uppreisnarmenn og alls fimmtán þúsund menn á þremur árum. Þjálfunin mun fara fram í Tyrklandi.

Í vef AlJazeera segir að Tyrkir sjá uppreisnarhópinn Free Syrian Army sem helstu vonarglætu Sýrlands, en sá hópur er mjög klofinn og hefur ekki gengið vel gegn stjórnarher Sýrlands og öðrum hópum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×