Erlent

ISIS-liðar brenndu flugmanninn lifandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mu'ath Al-Kasaesbeh.
Mu'ath Al-Kasaesbeh. Skjáskot
Flugmaðurinn Mu’ath Al-Kasaesbeh frá Jórdaníu sem hefur verið í haldi Íslamska ríkisins frá því desember var brenndur lifandi í dag. Samtökin birtu myndband af morðinu á netinu. Þar sést hvernig hann situr fastur í búri og olíu er helt yfir hann áður en hann er brenndur.

Al-Kasaesbeh var handsamaður eftir að flugvél hans brotlenti í Sýrlandi en viðræður hafa verið á milli aðila síðustu vikuna um að fá hann leystan úr haldi. ISIS vildu fá Sajida al-Rishaw úr fangelsi, en hún var dæmd fyrir hryðjuverk í Jórdaníu.

Fyrir nokkrum dögum myrtu samtökin fréttamanninn Kenji Goto og fyrir það var Haruna Yukawa tekinn af lífi.

Sky News segja að yfirvöld í Jórdaínu hafi tilkynnt fjölskyldu Al-Kasaesbeh að hann sé látinn.

Jórdanía hafði gefið út að þeir væru tilbúnir til fangaskipta við ISIS, en þeir vildu fá sönnun um að Al-Kasaesbeh væri enn lifandi. Þá hafa þeir hótað að taka vígamenn samtakanna sem sitja í fangelsum Jórdaníu af lífi, yrði hann myrtur.

Áður en hann er brenndur, er rætt við Al-Kasaesbeh þar sem hann situr við borð og er með glóðurauga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×