Handbolti

Danir klófestu fimmta sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska liðið.
Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska liðið. Vísir/Eva Björk
Danmörk vann Króatíu, 28-24, í leik um fimmta sætið á HM í handbolta í Katar í dag. Danir leiddu allan tímann en Króatar gerðu harða atlögu að forystu þeirra á lokamínútum leiksins.

Óljóst er hversu mikilvægt það var að landa fimmta sætinu þar sem Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, hefur ekki enn gefið út hvort að sama fyrirkomulag verði á undankeppni ÓL 2016 og síðustu ár.

Sjá einnig: Guðmundur: Vitum ekki hvað við erum að spila um

Danmörk tapaði aðeins einum leik allt mótið en það var fyrir Spánverjum í 8-liða úrslitum keppninnar. Liðið gerði þó tvö jafntefli í riðlakeppninni.

Eftir jafnar upphafsmínútur í dag tóku Danir yfirhöndina með því að skora fjögur mörk í röð og breyta stöðunni úr 4-4 í 8-4. Króatar virtust fremur áhugalausir um leikinn en staðan að loknum fyrri hálfleik var 15-11.

En í síðari hálfleik leit út fyrir að Danir væru ekki með hugann við leikinn. Liðið tapaði óvenjumörgum boltum og Króatar voru búnir að minnka muninn í tvö mörk, 18-16, áður en langt var um liðið.

Danir vöknuðu þá til lífsins áður en Króatar náðu enn og aftur að koma til baka. Þeir síðarnefndu fengu tækifæri til að minnka muninn í eitt mark þegar um tíu mínútur voru eftir en þá kom Niklas Landin í mark Dana og sá til að það kom aldrei til þess. Hann var frábær þessar síðustu tíu mínútur leiksins.

Mikkel Hansen átti stórleik í sókninni og skoraði átta glæsileg mörk fyrir danska liðið. Mads Christiansen kom næstur með þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×