Erlent

Kanadískir sérsveitarmenn börðust við vígamenn ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Íraski herinn, Peshmerga sveitir Kúrda og vesturveldin berjast gegn ISIS í Írak.
Íraski herinn, Peshmerga sveitir Kúrda og vesturveldin berjast gegn ISIS í Írak. Vísir/AFP
Kanadískir sérsveitarmenn börðust við vígamenn Íslamska ríkisins í Írak í síðustu viku. Er það í fyrsta sinn sem hermenn vestrænna ríkja berjast við ISIS á jörðu niðri. Loftárásir gegn ISIS hófust þó í september í fyrra og fjöldi hermanna er í Írak að þjálfa herinn og öryggissveitir Kúrda.

AFP fréttaveitan hefur eftir hershöfðingjanum Michael Rouleau að sérsveitarmennirnir hafi fellt vígamennina, sem skutu á hermennina úr sprengjuvörpum og vélbyssum. Engin sérsveitarmaður féll.

„Hermennirnir voru í aðgerðarundirbúningi með nokkrum foringjum íraska hersins, nokkra kílómetra frá víglínunni. Að því loknu héldu þeir til víglínunnar til að fylgjast með hernum og þá urðu þeir fyrir árás.“

Hershöfðinginn sagði að vígamennirnir hefðu verið felldir með leyniskyttum. „Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum lent í átökum í Írak.

Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa gert fjölda loftárása í Írak og Sýrlandi þar sem reynt er að halda aftur af Íslamska ríkinu frá því í september. Kanada tekur þó eingöngu þátt í aðgerðunum í Írak og hafa um 600 hermenn og flugmenn verið sendir til Írak. Þar að auki eru 69 sérsveitir, sem taka þátt í þjálfun og ráðgjöf, en eiga ekki að taka þátt í bardögum.

Bandaríski hershöfðinginn Jonathan Vance, sagði nýverið að sókn ISIS hafi verið stöðvuð í Írak og að samtökin hafi ekki burði til að sækja fram. Hinsvegar hafi þeir ekki þurft að hörfa undan íraska hernum enn sem komið er, nema á einstökum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×