Fótbolti

Fylkir og Selfoss græða yfir 40 milljónir á Viðari Erni

Óskar Hrafn Þorvaldsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. vísir/vilhelm
Sala framherjans Viðars Arnar Kjartanssonar  frá Valerenga til kínverska liðsins Jiangsu Guoxin-Sainty mun skila Fylki og Selfoss tugum milljóna króna.

Samkvæmt útreikningum Vísis munu bæði lið fá yfir 40 milljónir króna af kaupverðinu sem er samkvæmt heimildum Vísis nálægt hálfum milljarði íslenskra króna.

Heimildir Vísis herma að Fylkir hafi við söluna á Viðari Erni til Valerenga í fyrra samið um hluta í áframsölu á Viðari.

Heimildir herma að sá hluti sé um 15 prósent og skiptist á milli Fylkis og uppeldisfélags Viðars Selfoss. Um er ræða hátt í 70 milljónir af kaupverðinu sem kínverska liðið borgar. Eftir því sem Vísir kemst næst fær Fylkir stærri hluta af þessari upphæð en Selfoss.

Selfoss situr hins vegar í bílstjórasætinu þegar kemur að því að fá úthlutað svokölluðum samstöðubótum til uppeldisfélaga leikmanns sem ná yfir aldurstímabilið 12 til 23 ára – alls 5 prósent þar sem Viðar verður 25 ára á þessu ári.

Viðar er uppalinn Selfyssingur og lék með liðinu til tvítugs þegar hann skipti yfir í ÍBV í rúmt ár. Hann fór aftur til Selfoss og spilaði síðan með Fylki í tvö ár þar til hann fór út í fyrra.

Samstöðubætur virka þannig að greitt er 0,25 prósent af kaupverðinu fyrir hvert ár frá 12 til 16 ára aldurs.

Greitt er 0,5 prósent af kaupverðinu fyrir hvert ár eftir það til 23 ára aldurs. Samkvæmt eftirgrennslan Vísis fær Selfoss 3,5 prósent af þessum 5 prósentum, Fylkir 1 prósent og ÍBV 0,5 prósent.

Ljóst er því að bæði Fylkir og Selfoss fá yfir 40 milljónir hvort félag fyrir söluna á Viðari og ÍBV fær að öllum líkindum tvær til þrjár milljónir í sinn hlut.


Tengdar fréttir

Viðar Örn með yfir 100 milljónir króna í árslaun

Kínverska félagið Jiangsu Guoxin-Sainty greiðir norska félaginu Vålerenga hátt í hálfan milljarð fyrir framherjann Viðar Örn Kjartansson sem er við það að skrifa undir tveggja ára samning við félagið.

Spennandi en skrítið að spila í Kína

Markahæsti leikmaðurinn í Noregi, Viðar Örn Kjartansson, mun líklega söðla um á nýju ári. Hann er eftirsóttur og er meðal annars með tilboð frá Kína.

Viðar gerði risasamning | Gæti samt farið í janúar

Landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson skrifaði nú í hádeginu undir nýjan samning við norska félagið Vålerenga. Hann framlengdi til tveggja ára við félagið og er nú samningsbundinn til ársins 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×