Lést þrátt fyrir sögulega aðgerð
Fréttastofa STV í Svíþjóð sagði í dag frá því að engin gögn séu til hjá sænskum heilbrigðisyfirvöldum um að læknirinn Paolo Macchiarini hafi leitað leyfis hjá siðanefnd fyrir rannsóknum á Karólínska sjúkrahúsinu síðastliðin sex ár, hvað þá fengið slík leyfi. Á árunum 2011 og 2012 framkvæmdi Macchiarini hins vegar þrjár gervibarkaígræðslur á sjúkrahúsinu sem hann skrifaði svo um í fræðilegri ritgerð sem birtist í læknaritinu The Lancet.

Þetta dugði þó ekki til að sigrast á veikindum Andemariam sem lést í fyrra á Karólínska sjúkrahúsinu. Af þeim þremur sjúklingum sem Macchiarini á að hafa framkvæmt aðgerð á án leyfis eru tveir nú látnir, Andemariam og bandarískur karlmaður.
Kærður af samstarfsmönnum sínum
New York Times greindi frá því fyrir áramót að fjórir læknar sem aðstoðað höfðu Macchiarini með aðgerðirnar höfðu kært hann til Karólínska sjúkrahúsins vegna þess að ekkert benti til þess að leyfi hefði fengist fyrir aðgerðunum hjá siðanefnd. Þeir gerðu meðal annars einnig athugasemdir við það að í greininni í The Lancet sé fullyrt að ekkert hafi komið upp á í bataferli Andemariam fimm mánuðum eftir aðgerðina.
Sjá einnig: Sér fram á fleiri ígræðslur á manngerðum líffærum
Hið rétta sé að áður en greinin var birt hafi þurft að koma fyrir stoðneti í plastbarkanum og Macchiarini hafi átt að vita af því. RÚV greindi frá því á sínum tíma að Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir hjá Landspítalanum sem tók þátt í aðgerðinni á Andemariam, væri ekki meðal þeirra sem kærðu Macchiarini.
Heldur fram sakleysi sínu
Í frétt STV kemur fram að læknar í Svíþjóð þurfa leyfi siðanefndar heilbrigðiseftirlitsins fyrir öllum nýjum rannsóknum á fólki. Þetta er líka oftast skilyrði fyrir því að niðurstöður rannsókna séu birtar í fræðilegum ritum og í greininni í The Lancet stendur að ígræðslan á Andemariam hafi verið samþykkt af siðanefndinni. Það var þó ekki gert og segir Eva Lind Sheet, formaður siðanefndarinnar, í samtali við STV að það sé mjög leitt að það hafi ekki verið óskað eftir leyfi fyrir þessum aðgerðum.
Í frétt New York Times frá því í nóvember harðneitar Macchiarini því að hafa farið á bak við siðareglur og segist handviss um að rannsókn á málinu muni leiða í ljós sakleysi hans. Talsmenn Karólínska sjúkrahússins segja í skriflegu svari til STV að ekki hafi verið litið svo á að leyfi siðanefndar þyrfti fyrir þessum aðgerðum, þar sem um neyðartilfelli væri að ræða og ekki litið á þær sem rannsóknir á fólki.