Fótbolti

Geir vill meir: Formaðurinn og allir hinir bjóða sig aftur fram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Formannsseta Geirs verður tíu ár fái hann kosningu aftur.
Formannsseta Geirs verður tíu ár fái hann kosningu aftur. vísir/stefán
Þann 14. febrúar fer fram 69. ársþing KSÍ og er nú komið að formanns- og stjórnarkosningu. Framboð til stjórnar KSÍ skal berast skriflega minnst hálfum mánuði fyrir þing eða í síðasta lagi 31. janúar.

Í tölvupósti sem KSÍ sendir á aðildafélög sín í dag kemur fram að Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, býður sig fram til áframhaldandi formannssetu.

Hann hefur sinnt starfi formanns knattspyrnusambandsins síðan 2007 þegar hann tók við af Eggerti Magnússyni, en Geir var áður framkvæmdastjóri KSÍ.

Formaður situr í tvö ár í senn rétt eins og þeir fjórir aðilar sem kosnir eru í aðalstjórn. Gylfi Þór Orrason, varaformaður, Guðrún Inga Sívertsen, gjaldkeri, Róbert Agnarsson, og Vignir Már Þormóðsson bjóða sig öll fram til áframhaldandi stjórnarsetu.

Einnig sitja í aðalstjórn þau Gísli Gíslason, Jóhannes Ólafsson, Ragnhildur Skúladóttir og Rúnar Vífill Arnarson, en kjörtímabíli þeirra lýkur á næsta ári.

Allir fjórir landshlutafulltrúarnir; Jakob Skúlason (Vesturland), Björn Friðþjófsson (Norðurland), Valdemar Einarsson (Austurland) og Tómas Þóroddson (Suðurland), gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn sem aðalfulltrúar landsfjórðunga.

Allir þrír varamenn stjórnar gefa svo kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en kosið er um þeirra sæti að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×