Handbolti

Liðsfélagi Arnórs Atlasonar missir af HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins. Vísir/Getty
Danski leikstjórnandinn Morten Olsen verður ekki með á HM í handbolta í Katar en hann er á leiðinni í aðgerð eftir að hafa nefbrotnað á æfingu hjá Guðmundi Guðmundssyni.

Morten Olsen nefbrotnaði eftir samtuð við Rene Toft Hansen um síðustu helgi og síðan hafa menn í þjálfarateyminu og Olsen sjálfur skoðað það hvort hann gæti mögulega spilað í Katar. Olsen valdi það hinsvegar að fara í aðgerð og fórna HM.

„Auðvitað er ég mjög leiður yfir þessu en það var mitt mat að ég gæti ekki hjálpað liðinu nógu mikið með brotið nef. Við það bættist sú áhætta að fá aftur högg á nefið," sagði Morten Olsen við heimasíðu danska sambandsins.

Morten Olsen átti mögulega að fá fyrsta alvöru tækifærið með danska landsliðinu á HM í Katar en hann hefur spilað mjög vel með franska liðinu Saint-Raphaël Var HB þar sem hann er liðsfélagi íslenska landsliðsmannsins Arnórs Atlasonar.

Morten Olsen lék áður með Hannover-Burgdorf en hann varð meðal annars þriðji markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar 2012-13.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, hrósaði Morten Olsen fyrir það að setja hagsmuni liðsins í fyrsta sæti og sagðist íslenski þjálfarinn bera mikla virðingu fyrir leikmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×