Fótbolti

Viljum sýna að við getum staðið undir þessari pressu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar frá Brüssel skrifar
Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck ætlar að gefa nokkrum tækifæri á að sanna sig í kvöld.
Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck ætlar að gefa nokkrum tækifæri á að sanna sig í kvöld. vísir/AFP
Þrátt fyrir smávægileg skakkaföll í íslenska landsliðshópnum eru flestir klárir í slaginn fyrir vináttulandsleikinn gegn Belgíu í Brussel í kvöld. Belgar, fjórða sterkasta knattspyrnulið heims samkvæmt styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, hafa á að skipa góðu liði sem er að búa sig undir mikilvægan leik gegn Wales í undankeppni EM 2016 á sunnudag.

„Leikmennirnir sem spila eru allir hjá sterkum félagsliðum í Evrópu sem flest spila í Meistaradeildinni. Þetta verður virkilega góð og erfið prófraun fyrir okkur,“ sagði Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska landsliðsins, við Fréttablaðið í gær.

Hann reiknar með að leikmenn sem hafa staðið fyrir utan byrjunarliðið í leikjum Íslands í undankeppni EM 2016 til þessa fái tækifærið en var enn óviss um hverjir gætu tekið þátt í leiknum.

„Ólafur Ingi [Skúlason] náði sér í pest og Sölvi hefur verið í vandræðum með bakið. Báðum leið þó betur í dag en við munum meta ástand þeirra endanlega á leikdag,“ sagði Lagerbäck.

Ólíklegt er að Kári Árnason spili með vegna támeiðsla sem kunnugt er en hann gat þó æft með liðinu í gær, líkt og Emil Hallfreðsson sem hvíldi á æfingunni á mánudag.

„Það verða nokkrar breytingar á liðinu og einhverjir koma beint inn í byrjunarliðið og aðrir spila í 45 eða 60 mínútur. Ég veit ekki hvort við notum allar sex skiptingar sem okkur standa til boða þótt það sé líklegt,“ sagði þjálfarinn sem ætlar að nota fleiri en einn markvörð í leiknum.

Strákarnir æfa í Belgíu í gær.vísir/afp
Breyttir tímar í landsliðinu

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði segir að þeir leikmenn sem fái tækifærið í kvöld séu ólmir í að sýna sig og sanna.

„Það eru breyttir tímar í landsliðinu og meiri breidd en hefur verið áður. Ef þessir leikmenn sem koma inn núna nýta tækifærið verða þeir Lars og Heimir með hausverk fyrir leikinn á sunnudag,“ segir Aron Einar sem þrátt fyrir ungan aldur hefur verið lengi í landsliðinu.

„Ég hef verið í þessu síðan ég var átján ára og gengið í gegnum ýmislegt. Áhuginn á landsliðinu hefur verið að stigmagnast og aldrei verið meiri en nú. Það er virkilega skemmtilegt að taka þátt í því,“ segir Aron en von er á að minnsta kosti sex hundruð stuðningsmönnum Íslands á leikinn í Tékklandi. Fleiri óskuðu þó eftir miðum á leikinn en fengu ekki.

„Það er bara ótrúlegt og við kunnum virkilega vel að meta þennan góðan stuðning. Ég man þegar umræðan í kringum landsliðið var á þann veg að oft var verið að leita að ástæðu til að sýna að við værum ekki að standa okkur vel. En nú er þetta allt öðru vísi og allt undir okkur sjálfum komið. Við viljum sýna að við erum með breitt bak og getum tekið við þessari pressu sem við höfum sjálfir sett á okkur.“

Mikilvægi þjálfaranna

Gríðarlega mikill áhugi er á íslenska landsliðinu hér í Belgíu og fjölmiðlafólk víða að sem hefur sýnt því áhuga í aðdraganda þessa leiks. Fulltrúar fjölmiðla frá Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi auk heimamanna voru viðstaddir blaðamannafund KSÍ á hóteli liðsins í Brussel í gær og spurðu þjálfara Íslands um ástæður velgengni landsliðsins.

Meðal þeirra svara sem Heimir Hallgrímsson nefndi var það hlutverk sem þjálfarar gegna.

„Allir þjálfarar á Íslandi hafa fengið menntun sem knattspyrnuþjálfarar og verður að hrósa íslenska knattspyrnusambandinu fyrir hvernig staðið hefur verið að þeim málum. Allir krakkar á Íslandi sem æfa knattspyrnu eru með þjálfara með réttindi og það er ein helsta ástæða fyrir því að okkur hefur tekist að senda svo marga knattspyrnumenn í atvinnumennsku, sem gagnast landsliðinu okkar mjög.“


Tengdar fréttir

Kennslustund Bales nýttist landsliðinu okkar vel

Íslenska landsliðið hefur haldið hreinu í 422 mínútur eða í níu síðustu hálfleikjum sem liðið hefur spilað. Á sama tíma hefur íslenska liðið skorað tíu mörk í röð án þess að mótherjarnir hafi svarað.

Kári: Líklega heppinn að deyja ekki í þessum leik

Kári Árnason, leikmaður Rotherham í Englandi, reiknar ekki með öðru en að verða klár í slaginn þegar Ísland mætir Tékklandi í undankeppni EM 2016 á sunnudagskvöld. Hann verður þó ekki með er strákarnir mæta Belgíu í vináttulandsleik ytra annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×