Skoðun

Sterkt á­fengi í mat­vöru­verslanir? Nei takk

Adolf Ingi Erlingsson skrifar

Umræðan um lagafrumvarpið sem liggur fyrir alþingi um afnám einkasölu ríkisins á áfengi virðist vera á villigötum. Flutnings- og stuðningsmönnum þess hefur tekist að stýra umræðunni á þann veg að aðeins er talað um hvort við viljum geta keypt léttvín og bjór í matvöruverslunum og sparað okkur það ógurlega ómak að þurfa að fara í sérstaka vínbúð til þess.

Því er síðan slegið upp að nýlegar skoðanakannanir sýni að meirihluti fólks sé fylgjandi sölu léttvins og bjórs í matvöruverslunum.

En það er ekki bara það sem frumvarpið felur í sér, heldur tekur það líka til sterks áfengis, þannig að sala þess verður líka færð úr vínbúðunum í matvöruverslanir verði það samþykkt. Viljum við það? Sömu skoðanakannanir benda til þess að svo sé ekki.

Öfugt við fyrsta flutningsmann frumvarpsins er ég langt frá því að vera bindindismaður og nýt þess reglulega að drekka gott vín með góðum mat. En ég hef aldrei litið á það sem skerðingu á persónufrelsi mínu né talið eftir mér að þurfa að gera mér ferð í Vínbúðina til að kaupa áfengi. Þar nýt ég frábærrar þjónustu vel þjálfaðs afgreiðslufólks og mikils og góðs úrvals vína. Miðað við þjónustustigið í matvöruverslunum almennt efast ég stórlega um að ég muni njóta hvorugs verði frumvarpið að lögum.

Þrátt fyrir að heildarneysla áfengis á Íslandi hafi hátt í tvöfaldast frá því að sala á áfengum bjór var leyfð árið 1988 erum við á meðal þeirra þjóða í Evrópu sem drekka hvað minnst. Rétt fyrir ofan okkur í neyslu eru hinar Norðurlandaþjóðirnar þar sem sama fyrirkomulag er, það er einkasala ríkisins, Svíar, Norðmenn og Finnar.

Danir skera sig hinsvegar úr með um 70% meiri neyslu á mann en við Íslendingar, enda ríkir þar hið rómaða frelsi í sölu áfengis.

Mjög hefur dregið úr unglingadrykkju hér á landi síðustu árin og hún er ein sú minnsta í Evrópu. Viljum við hætta þeim árangri sem hefur náðst á því sviði með því að auka aðgengið að áfengi?

Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins um áfengisneyslu í Evrópu og áhrif hennar á þjóðfélagið er ein árangursríkasta og ódýrasta leiðin til að draga úr neyslu áfengis að takmarka framboð þess. Í skýrslunni er bent á að ríkiseinkasalan á Norðurlöndunum gefist mjög vel í þessu skyni.

Kannski er það þess vegna sem mjög lítið heyrist á hinum Norðurlöndunum talað um afnám einkasölu ríkisins, hvað þá að ábyrgir þingmenn berjist fyrir því í nafni hins heilaga frelsis.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins hefur staglast á frjálshyggjumöntrunni um að ríkið eigi ekki og megi ekki.

Ríkið eigi ekki að standa í verslunarrekstri, sama þótt um vöru eins og áfengi sé að ræða. Hinsvegar fylgja frumvarpinu engin rök um hvað því sé ætlað að bæta annað en „frelsi“ kaupmanna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×