Ásdís Hjálmsdóttir keppir fyrst íslensku keppendanna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í Zürich í dag þegar hún kastar í undankeppni í spjótkasti klukkan 10.16 að íslenskum tíma.
Ásdís er að keppa á sínu áttunda stórmóti í röð en hún hefur ekki misst úr stórmót (HM, EM eða Ólympíuleika) síðan hún var ekki með á HM í Osaka í Japan árið 2007.
Besta sæti náði hún á EM í Barcelona fyrir fjórum árum, en þá var hún í 10. sæti. Hún varð í 11. sæti á ÓL í London eftir að hafa sett Íslandsmet í undankeppninni.
Alls eru 22 keppendur skráðir til leiks og er Ásdís skráð með tólfta besta árangurinn á árinu en hún er í þrettánda sæti þegar besti persónulegi árangur spjótkastaranna er borinn saman.
Hafdís Sigurðardóttir keppir einnig í dag í undankeppni í langstökki kvenna, en hennar riðill byrjar klukkan 18.07 að íslenskum tíma.
Þá eru 28 konur skráðar til leiks í langstökkið og er Hafdís skráð með 25. besta árangurinn á árinu sem jafnframt er Íslandsmet.
Til þess að komast í úrslitin þarf Ásdís að kasta spjótinu 57,50 metra og Hafdís að stökkva 6,65 metra í langstökkinu. Þær komast líka í úrslitin verði þær meðal þeirra tólf bestu í undankeppninni.
