Tíska og hönnun

Opna tískuvígi fyrir herrana í fornfrægu húsi

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Æskuvinirnir Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson opna herrafataverslunina Húrra Reykjavík á Hverfisgötu í haust.
Æskuvinirnir Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson opna herrafataverslunina Húrra Reykjavík á Hverfisgötu í haust. Mynd/Snorri Björnsson
Það hefur lengi blundað í okkur sá draumur að opna herrafataverslun. Frá áramótum höfum við markvisst unnið að undirbúningi Húrra Reykjavík og fóru áformin á fullt þegar ég flutti heim frá Kaupmannahöfn í apríl. Jón Davíð sagði síðan starfi sínu lausu nýlega og má því segja að meiri alvara hafi færst í hlutina,“ segir Sindri Snær Jensson, sem opnar herrafataverslunina Húrra Reykjavík í félagi við æskuvin sinn, Jón Davíð Davíðsson, í haust.

Verslunin verður á Hverfisgötu 50, í húsi sem var byggt árið 1906 og á sér mikla verslunarsögu. „Við urðum ástfangnir af húsnæðinu en hin goðsagnakennda Bára bleika rak þar í áratugi verslunina „Hjá Báru“ og tók hún við húsinu af tengdaföður sínum sem einnig rak þar verslun. Erlendis eru allar sértækustu og flottustu verslanirnar staðsettar á aðalverslunargötu eða nærliggjandi hliðargötum. Það er mikið af spennandi hlutum að gerast í miðbæ Reykjavíkur og hefur Hverfisgatan nýlega gengið í endurnýjun lífdaga. Við munum svo ýta frekar undir þessa uppbyggingu með Húrra Reykjavík.“

Sindri Snær er markmaður hjá KR og heldur úti tískubloggsíðunni Sindrijensson.com en Jón Davíð er viðskiptafræðingur og starfar sem verslunarstjóri í Húsgagnahöllinni. Félagarnir segjast sækja innblástur frá mörgum af flottustu herrafataverslunum Danmerkur og Svíþjóðar þegar kemur að vöruúrvali og stemningu í versluninni. Þeir telja hafa hallað á karlmenn þegar kemur að úrvali verslana því ekki eru margar verslanir sem sinna eingöngu strákum.

„Við viljum bjóða íslenskum karlmönnum upp á nýjan og ferskan valmöguleika í klæðnaði. Sá möguleiki er undir miklum áhrifum af skandinavískri hönnun sem sameinar vel gæði og notagildi í hversdagslegu amstri. Karlmenn munu þannig eignast sitt vígi í versluninni ef svo má segja,“ segir Sindri, sem var nýkominn af sölusýningu í Berlín þegar Lífið náði af honum tali.

Þeir félagarnir stefna að því að opna verslunina snemma í haust. „Ef allt gengur að óskum er planið að opna með heljarinnar partíi fyrstu helgina í september.“

Sindri Snær og Jón Davíð segja verslunina vera undir áhrifum frá Danmörku og Svíþjóð.Mynd/Snorri Björnsson
Straumar og stefnur í herratískunni næsta vetur?

„Það sem maður tekur mest eftir er einfaldleiki. Flest betri vörumerki eru að bjóða upp á mjög herralega og klassíska liti, má þar nefna svart, hvítt, blátt og grátt. Eins ótrúlega og það virðist hljóma verður mikið úrval af hvítum flíkum og þá ekki bara skyrtum heldur einnig jökkum, buxum og peysum. Þá má greinilega sjá breytingu á því hvernig buxur eru sniðnar, undanfarin ár hafa mjög þröngar buxur (e. skinny fit) ráðið ríkjum en nú eru sniðin beinni. Þá hefur skapast mikil menning í kringum strigaskó og eru þeir orðnir mun meiri heilsársvara frekar en árstíðartengd. Mestu máli skiptir þó alltaf að velja sér vandaðan og vel sniðinn fatnað sem hentar einstaklingnum hverju sinni,“ segir Sindri Snær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×