Fótbolti

Dóra María fyrst til að spila hundrað landsleiki fyrir þrítugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Lárusdóttir.
Dóra María Lárusdóttir. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Það eru enn 477 dagar þangað til Dóra María Lárusdóttir heldur upp á þrítugsafmælið sitt og ætti því að eiga mörg ár eftir í viðbót til að bæta við landsleikina hundrað sem hún hefur spilað með kvennalandsliði Íslands.

Dóra María lék sinn fyrsta landsleik í 10-0 sigri á Póllandi 13. september 2003 og var búin að skora sitt fyrsta mark fimm mínútum eftir að flautað var til leiks. Síðan hefur íslenska kvennalandsliðið spilað 107 landsleiki og Dóra María hefur komið við sögu í 100 þeirra auk þess að sitja á varamannabekknum í þremur til viðbótar.

Í raun hefur ekki verið valinn íslenskur landsliðshópur án Dóru Maríu Lárusdóttur síðan fyrir vináttulandsleik við Bandaríkin 24. júlí 2005 en hún var þá ásamt fleiri A-landsliðskonum upptekin á Norðurlandamóti með 21 árs landsliðinu.

Síðasti landsliðsþjálfarinn sem leit fram hjá Dóru Maríu í vali á A-landsliðshópi kvenna var Helena Ólafsdóttir, núverandi þjálfari hennar hjá Val, sem valdi hana ekki í hópinn fyrir leik í Póllandi 27. september. Dóra María missti þá sætið sitt til Eddu Garðarsdóttur sem lék ekki leikinn á undan, fyrsta A-landsleik Dóru Maríu, þar sem hún var upptekin í námi í Bandaríkjunum.

Dóra María lék í gær sinn 36. landsleik í röð og einu tveir leikirnir sem hún hefur misst af frá og með árinu 2007 (af 83) voru tveir fyrstu leikirnir á Algarve-mótinu en hún glímdi þá við meiðsli. Dóra María spilaði þriðja leikinn og skoraði þá sigurmarkið sem tryggði íslenska liðinu sæti í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×