Skoðun

Búskaparbasl og þjóðarhagur

Þórólfur Matthíasson skrifar
Forsvarsmenn bænda og stjórnmálamenn í leiðtogastöðum halda því fram að landbúnaður á Íslandi sé þjóðhagslega hagkvæmur. Skoðum hversu traustum fótum sú staðhæfing stendur.

Framlag til landsframleiðslu

Hagstofa Íslands hefur nýverið opinberað hagreikninga landbúnaðarins fyrir árið 2013. Samkvæmt bókhaldi Hagstofunnar námu opinberir styrkir til greinarinnar 9,9 milljörðum króna það ár. Fjárlagaáætlun fyrir árið 2013 gerði ráð fyrir að styrkupphæðin yrði um 12 milljarðar króna. Væntanlega er flokkun Hagstofunnar hvað teljist styrkir til landbúnaðar íhaldssamari en flokkun fjármálaráðuneytisins. Hagstofan telur hreint vinnsluvirði landbúnaðar, styrkir innifaldir, hafa verið 13,9 milljarðar króna árið 2013. Framlag landbúnaðarins til landsframleiðslunnar, þegar ríkis-styrkirnir eru dregnir frá, var 4,0 milljarðar króna árið 2013.

Skipting hreinna landbúnaðartekna

Hreinn fjármagnskostnaður landbúnaðarins, samkvæmt Hagstofunni, nam fjórum milljörðum króna árið 2013 og leigugjöld námu 0,1 milljarði króna. Þannig að hefði 9,9 milljarða króna framlag úr ríkissjóði ekki komið til hefði landbúnaðurinn ekki getað greitt laun og ekkert hefði heldur verið eftir í formi rekstrarhagnaðar og einyrkjatekna!

Landbúnaður er ekki þjóðhagslega hagkvæmur með núverandi fyrirkomulagi. Uppgjör Hagstofunnar er gert á grundvelli innlends verðlags á landbúnaðarvörum. Væri innflutningsverðlag lagt til grundvallar, að hætti OECD, myndi framlag landbúnaðar til landsframleiðslu verða minna en ekki neitt! Landbúnaður með þeirri styrkja- og boða- og bannaumgjörð sem rekin er á Íslandi er eins fjarri því að vera þjóðhagslega hagkvæmur og hægt er. Greinin stendur ekki undir launagreiðslum óstudd. Um 3-5000 manns með fulla starfsgetu eru beinlínis á framfæri skattgreiðenda við að mjólka kýr og smala kindum.

Þarf þetta að vera svo? Alls ekki! En til að greinin komist úr þessari stöðu styrkþiggjandans þarf að gjörbylta allri stofnanaumgjörð landbúnaðarins, afnema einkarétt afurðastöðva og veita inn frískum vindum samkeppninnar. Bæld samkeppni gefur bælda afkomu bænda og búaliðs.




Skoðun

Sjá meira


×