Skoðun

Skyrinu slett á annarra kostnað?

Þórólfur Matthíasson skrifar
Í Fréttablaðinu 24. janúar sl. er sagt frá því að Mjólkursamsalan hafi uppi áætlanir um að framleiða skyr í Bandaríkjum Norður-Ameríku og nota til þess íslenskt undanrennuduft.

Útflutningsverð

Á fundi Félags kúabænda á Suðurlandi 3/10/2012 upplýsti forstjóri MS félagsmenn um að útflutt undanrennuduft væri selt á heimsmarkaðsverði en undanrenna flutt út í formi skyrs til Norðurlanda skilaði allt að 50% hærra verði. 

Við fyrstu sýn virðist því skynsamlegt frá sjónarhóli MS að auka skyrútflutning og draga úr útflutningi undanrennudufts. Heimsmarkaðsverð á undanrennudufti er nú óvenju hátt eða um 3.400 til 3.500 evrur á tonnið. Meðalverð á árinu 2013 var um 3.000 evrur tonnið eða um 530 krónur á kílóið. Verð í USA virðist heldur lægra en Evrópuverð. Af undanrennudufti sem flutt er til USA þarf að borga 10-15% toll. Skilaverð á undanrennudufti sem MS flytti út til USA og seldi á búvörumarkaði þar væri því um 420 krónur á kílóið.

Aðstæður á markaði fyrir skyr á Bandaríkjamarkaði eru talsvert aðrar en á Norðurlöndum. Á Norðurlöndum situr MS og samstarfsaðilar ein að markaðnum og geta hagað verðlagningu skyrs í samræmi við þá staðreynd. Í Bandaríkjunum er fyrir framleiðandi sem framleiðir skyr úr bandarísku hráefni og dreifir til smásöluaðila. Vegna þessarar samkeppni getur MS ekki reiknað með að verð á undanrennu í formi skyrs á Bandaríkjamarkaði verði hærra en verð á undanrennu í duftformi, þ.e.a.s. að skilaverð til Íslands verði ríflega 400 krónur á kílóið af undanrennudufti.

Innanlandsverð

Verðlagsnefnd búvöru ákvarðar heildsöluverð á undanrennudufti. Mjólkurvöruframleiðendur (hugsanlegir samkeppnisaðilar MS) fá undanrennuduft á 758 krónur á kíló, aðrir matvælaframleiðendur fá undanrennuduftið á 645 krónur á kíló. Í þeim tilvikum að MS kaupi undanrennuduft af sér sjálfri er hærri talan lögð til grundvallar. (Leiða má að því líkur að framleiðslukostnaður undanrennudufts sé nálægt 700 krónum á kíló.)

Skyrinu slett í USA

Fyrirsjáanlegt tap MS af því að flytja hvert kíló undanrennudufts til Bandaríkjanna er um 300 krónur á kíló. Þá á eftir að fjármagna tæki og markaðssetningu sem hleypur á milljónum dollara. Yfirgnæfandi líkur eru á að MS þyrfti að leggja fé til skyrframleiðslunnar í USA í stað þess að hafa tekjur af þeirri framleiðslu. Þegar til lengri tíma er litið eru aðeins tvær leiðir fyrir MS til að fjármagna slíkan taprekstur: annaðhvort með því að lækka verð til bænda eða með því að hækka verð á mjólkurvörum til neytenda. Lauslega áætlað tap hleypur á tugum til hundraða milljóna króna á ári. Ætli reynslan kenni ekki að neytendur muni sitja uppi með reikninginn fyrir skyraustur MS í USA ef af verður?




Skoðun

Sjá meira


×