Meðal íslenskra félaga sem unnið hafa að jarðvarmaverkefnum í útlöndum og eru ekki lengur virk, samkvæmt upplýsingum Lárusar, eru Geysir Green Energy (GGE), Enex, Landsvirkjun Power (LVP) og Reykjavík Energy Invest (REI).
„Höftin loka svo miklum tækifærum,“ segir Lárus, en þar komi til fælingarmáttur haftanna á erlenda fjárfesta. „Þetta er kannski ekki síður girðing hugans en raunveruleiki, en fólk forðast svona uppstillingar.“

„Jarðboranir eru með mestan hluta af sínum áhöldum erlendis og bora í Indónesíu og á Nýja-Sjálandi.“ Fólk í geiranum sé því bara jákvætt því staðan sýni að þar sem þekking er til staðar sé hægt að selja hana í einhverri mynd.
„En það hefði náttúrlega verið miklu skemmtilegra að gera eitthvað á íslenskum forsendum.“
Skaðinn fyrir Ísland endurspeglist í því að nú sé bara um að ræða útselda sérfræðivinnu í útlöndum, fremur en að verið sé að stofna fyrirtæki sem síðan skili heim hagnaði.
„Þeir segja grínlaust, verkfræðingarnir sem komnir eru til Noregs, að þeir séu farandverkamenn norðursins.“ Verkefnin sé ekki að finna heima og því þurfi menn að leita annað til að færa björg í bú.

„Staðan er óbærileg og sér ekki fyrir endann á henni,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta.
„Fjárfestar og sparifjáreigendur eiga enga kosti í þessu landi. Raunskattlagning sparnaðarkosta er hér um og yfir 100 prósent og hér er sennilega verðbóla á hlutabréfamarkaði,“ segir Vilhjálmur og kveður því sparifjáreigendur eiga afskaplega bágt.
„Og sá hópur sparifjáreigenda sem heitir lífeyrissjóðir á það enn bágara því hér er verið að byggja upp töluvert stóra bólu sem hugsanlega gæti leitt til skerðingar á lífeyri á komandi árum.“
Innanlandsáhætta innan hafta sé því að verða heldur mikil. Síðan reyni hver að klóra sig fram úr stöðunni eftir eigin hyggjuviti, hvort sem það sé með fasteignakaupum, eða með því að spara ekki.
Á þingi segir Vilhjálmur áfram þrýst á um lausn gjaldeyrishaftanna, en það gangi hægt.