Sport

Metið sem Aníta bætti var 27 ára gamalt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Valli
Aníta Hinriksdóttir vann enn eina ferðina hug og hjörtu landa sinna er hún kom fyrst í mark í 800 metra hlaupi kvenna á Reykjavíkurleikunum um liðna helgi.

Samkeppni erlendis frá setti ÍR-inginn fótfráa ekki út af laginu og kom Aníta í mark á tímanum 2:01,81 mínútu. Um nýtt Íslandsmet innanhúss er að ræða auk Evrópumets í flokki ungmenna 19 ára og yngri.

Fyrra metið var í eigu Gabrielu Sedlakovu, sem þá var titluð frá Tékkóslóvakíu, en hún hljóp á tímanum 2:01,85 mínútum árið 1987 á HM innanhúss í Indianapolis.

Aníta náði frábærum árangri á síðasta ári og gefur árangurinn fyrirheit um enn frekari afrek. Hún keppir á HM U-19 í Eugene í Bandaríkjunum í sumar og gæti einnig tekið þátt í EM fullorðinna í Zürich í Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×