Innlent

Svellkaldir sundmenn stungu sér til sunds í Laugarvatni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hópur sundmanna lét veðrið ekki stoppa sig í vikulegu Laugarvatnssundi sínu. Ískalt er á Laugarvatni líkt og annarstaðar á landinu en hópurinn óð engu að síður út í vatnið og tók nokkur sundtök. Vaktstjóri í Laugarvatn Fontana, eða gufubaðinu við Laugarvatn, tók myndband af athæfinu.

„Þeir koma alltaf hérna á miðvikudögum og fá sér sundsprett í vatninu og þeir voru ekkert að breyta út af vananum,“ segir Narfi Jónsson vaktstjóri en hann segir að sundkapparnir hafi ekki látið kuldann á sig fá. „Það er frekar kuldalegt en ekki jafn slæmt og í Reykjavík. Það er dálítið kalt en það er engin úrkoma.“

Narfi segist ekki hafa látið freistast og stungið sér til sunds. „Nei ég ákvað að vera bara á myndavélinni. Það þurfti einhver að taka það að sér,“ segir hann.

Eins og flestum er kunnugt hefur óveður gengið yfir landið í gær og dag. Samkvæmt veðurkorti Veðurstofu Íslands er nú þriggja til fjögurra gráðu frost á Suðurlandi.

Hægt er að sjá myndbandið sem Narfi tók af sundinu í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×