Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með líkum hætti og verið hefur síðustu vikur en þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs almannavarna sem fram fór í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í morgun.
Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni sátu fundinn.
Á morgun, þriðjudag 9. desember, verða liðnir 100 dagar frá upphafi eldgossins.
Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er enn öflug. Stærsti skjálftinn frá hádegi á föstudag mældist 5,1. Um tuttugu skjálftar á milli 4,0-5,0 mældust á tímabilinu og tíu skjálftar á milli 3,0-4,0. Alls mældust um 300 skjálftar við Bárðarbungu frá því á hádegi á föstudag.
Lítil jarðskjálftavirkni mældist við bergganginn og gosstöðvarnar í Holuhrauni frá hádegi á föstudag. GPS mælingar sýna engar breytingar. Land heldur áfram að síga í átt að Bárðarbungu með svipuðum hraða og verið hefur.
Enn hefur ekki tekist að koma á sambandi við GPS stöðina í öskju Bárðarbungu. Ólíklegt er að veður leyfi ferð á Bárðarbungu á næstu dögum en reynt verður að koma á sambandi við stöðina við fyrsta tækifæri.
Í dag má búast við gasmengun austur og suður af eldstöðinni fyrir hádegi, en eftir hádegi norður og norðvestur af henni. Á morgun má búast við mengun norður og norðaustur af gosstöðvunum.

