Innlent

Líklegra að jólin verði rauð

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Rauð jól líklegri segir Páll Bergþórsson
Rauð jól líklegri segir Páll Bergþórsson
Líklegra er að jólin hér á landi verði rauð, frekar en hvít. Þetta segir Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrum veðurstofustjóri. Hann segir að erfitt sé að segja til um það með neinni vissu hvernig veðri verði yfir jólahátíðina í ár. En með því að rýna í þær vísbendingar sem fyrir liggja megi segja að líkur séu á rauðum jólum.

„Það eru engin sambönd svo langt inn í framtíðina,“ segir hann þegar hann er spurður að því hvernig veðrið verði um jólin og heldur áfram:

„Alnmennt séð getum við litið á sjávarhitann. Við landið er ábyggilega tiltölulega hlýr sjór, eftir mestu hlýindi síðan mælingar hófust. Það bendir til þess að veðrið verði mildara en oftast áður. Það gæti þýtt það að það verði meiri líkur til þess að það verði rauð jól en hvít. En það er auðvitað mismunandi, eftir því hvaða stað á landinu maður horfir á.“

Páll segir að kalt loft úr norðri gæti haft áhrif og tryggt það að jólin verði hvít.

Um veðrið næstu daga segir Páll að líklega fari að kólna aftur. „Eftir níu til tíu daga er búist við því að það verði dálítið frost hér og þar, að minnsta kosti inn til landsins. Undanfarnar vikur hafa verið mikil hlýindi; hitinn hefur verið fjórum gráðum yfir því sem venjulegt.“

Páll segist vonast til þess að hlýindin haldi áfram og að jólin verði rauð. „Ég vil helst hafa þau rauð og hef alltaf viljað það. Áhugi minn á landbúnaði hefur ráðið því. Ég var uppalinn við hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×