Enski boltinn

Merson: Wenger út á þekju í taktíkinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez hjá Arsenal.
Alexis Sanchez hjá Arsenal. Vísir/Getty
Paul Merson, fyrrum leikmaður Arsenal, gagnrýndi Arsène Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, harðlega eftir 3-3 jafntefli liðsins á móti Anderlecht í Meistaradeildinni í gær.

Arsenal-liðið komst í 3-0 í leiknum en missti niður þriggja marka forskot á lokakafla leiksins og er nú vonlítið um að vinna riðilinn sinn.

Paul Merson vinnur nú sem knattspyrnuspekingur á Sky Sports og hann var fenginn til að leggja dóm sinn á Arsenal-liðið eftir leikinn.

„Ef ég segi alveg eins og er þá tel ég að þeir séu út á þekju í taktíkinni. Hvernig getur þú verið 3-0 yfir og ennþá verið að sækja á fullu. Þetta er ekki í fyrsta sinn því þetta er alltaf að gerast hjá þeim. Þeir eru algjörlega út á þekju," sagði Merson harðorður.

„Mitt mat er það að stjórinn þarf að koma skilaboðunum til sinna leikmanna. Þú ert að spila með landsliðsmenn og þetta eru ekki lítil börn. Þeir hafa spilað marga landsleiki, hafa spilað á HM og í fullt af leikjum í ensku úrvalsdeildinni," sagði Merson og bætti við:

„Þeir eru allir komnir í sóknina í stað þess að hafa tvær fjögurra manna línur og leyfa fremstu mönnunum að sjá um þetta. Láta hitt liðið um að reyna að brjóta þá niður," sagði Merson og skaut síðan aðeins á Wenger að lokum.

„Ég skal veðja um það að Jose Mourinho hefur ekki misst marga leiki niður í jafntefli eftir að hafa komist í 3-0. Það segir ykkur allt," sagði Merson.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×