Töluverð mengunarlykt finnst í bænum og er nokkuð slæmt skyggni.
Aukin brennisteinsdíoxíð (SO2) mengun mælist nú á norður- og vesturlandi. Tilkynningar um mengun hafa borist frá Akureyri, Skagafirði og Stykkishólmi. Hæðstu gildi sem mældust í morgun voru um 5100 míkrógrömm á rúmmetra á Sauðárkróki, um 2700 míkrógrömm á rúmmetra í Stykkishólmi og um 4000 míkrógrömm á rúmmetra á Akureyri.
Mengun á Akureyri hefur vaxið jafnt og þétt í alla nótt og náði hámarki í morgun þegar hún var komin í 4000 míkrógrömm. Börn í grunnskólum í bænum fá ekki að fara út í frímínútum.
Heldur meiri virkni hefur verið við Bárðarbungu síðasta sólarhring en þann á undan. Yfir 100 skjálftar hafa mælst en enginn þeirra hefur verið fimm eða stærri. Rétt innan við tíu eru stærri en fjögur stig. Stærsti var kl. 16:09 í gær og var hann 4,6. Um tugur skjálfta eru milli 3 og 4 að stærð.
Virkni undir norðanverðum bergganginum er svipuð og verið hefur undanfarna daga.
Foreldrar barna í Lundaskóla á Akureyri og á leikskólanum Lundaseli hafa fengið tölvupóst þess efnis að börnin verði öll innandyra í dag.
Foreldrar þurfa aftur á móti að taka sjálf ákvörðun um það hvort þeir sækja nemendur í skólann þegar skóladegi lýkur eða hvort þau verði látin ganga sjálf heim.
Hér að neðan má sjá myndband sem íbúi á Akureyri birtir á Fésbókarsíðu sinni. Þar smá glögglega sjá að nokkur mengun er í Eyjafirði.