Læknir sem annaðist ökuþórinn Michael Schumacher í hálft ár segir að hann hafi tekið einhverjum framförum frá skíðaslysinu í desember síðastliðnum.
Schumacher hlaut alvarlega höfuðáverka þegar hann féll á skíðum í frönsku ölpunum og lenti með höfuðið á grjóti. Honum var lengi haldið sofandi á meðan læknar börðust við áverka á heila Schumachers.
Schumacher er ekki lengur í dái og hlýtur nú umönnun á heimili sínu í bænum Gland í Sviss. Jean-Francois Payen, læknir sem annaðist hann á sjúkrahúsinu í Grenoble, vitjar hans reglulega þar.
Payen var í viðtali hjá frönsku útvarpsstöðinni RTL og Le Parisien dagblaðinu í dag þar sem hann segist hafa orðið vitni að því að Schumacher hafi tekið framförum á þessum tíma. Hann sagði á sínum tíma að Schumacher þyrfti langan tíma til að jafna sig, allt frá einu ári til þriggja.
„Ég hef tekið eftir einhverjum framförum en ég myndi segja að hann þurfi lengri tíma. Það þarf að sýna honum þolinmæði,“ sagði hann.
„Við vitum að sumir geta þurft 3-4 ár í endurhæfingu. Það fer allt eftir alvarleika meiðslanna og aldri og líkamlegu ástandi viðkomandi.“