Brandur hyggst ferðast um hálendi Íslands, með pensilinn að vopni, og mála myndir af fjöllum og firnindum víðsvegar um land. Hann mun beita heldur nýstárlegri aðferð við listsköpun sína. „Listverkefnið gengur út á að nota flygildi (e. Drone) til að aðstoða mig við að taka myndir sem ég svo mála eftir. Þar sem ég er í hjólastóli gefur það mér tækifæri á að sjá viðfangsefni mín frá öðrum sjónarhornum en ella,“ segir Brandur í samtali við Vísi.
Fyrir tíu árum fór hann að missa mátt í útlimum og tæpum fjórum árum síðar var hann nánast alveg lamaður fyrir neðan háls. Hann lét það þó ekki stöðva sig og hefur Brandur nú í liðlega þrjú ár málað myndir með munninum – en tæknina lærði hann hjá Eddu Heiðrúnu Bachman.