Innlent

Engin merki um að eldgosið sé í rénun

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/auðunn
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama hætti og síðustu daga. Engin merki sjást um að eldgosið sé í rénun en þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.

Ekkert hefur dregið úr framleiðslu hrauns. Hraunbreiðan er nú rúmir 37 ferkílómetrar. Nýjar mælingar á þykkt hraunsins sýna að heildar rúmmál hraunsins er 0,4-0,6 rúmkílómetrar og kvikuflæði 250-350 rúmmetrar á sekúndu.

Sig öskju Bárðarbungu heldur áfram á svipuðum hraða og verið hefur og áfram mælast stórir skjálftar við Bárðarbunguöskjuna, en þar hafa mælst 12 jarðskjálftar stærri en 3,0 frá síðasta fundi Vísindamannaráðs í gærmorgun.

Sá stærsti mældist 5,5 kl 10:51 í gær og er hann næst stærsti skjálftinn frá því hrinan hófst þann 16. ágúst síðastliðinn. Smærri skjálftar mælast enn við norðurhluta berggangsins og við gosstöðvarnar.

Með morgninum mun vindur á gosstöðvunum væntanlega snúast tímabundið í vestanátt og berst þá gasmengunin til austurs. Uppúr hádegi má búast við suðvestanátt og að mengunin berist til norðausturs. Mengunar gæti því orðið vart á svæði frá Þistilfirði í norðri og suður á Austfirði.

Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×