Viðskipti innlent

Orð Sigmundar og Bjarna um virðisaukaskatt rifjuð upp

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sigmundur og Bjarni tjáðu sig um virðisaukaskattkerfið á annan hátt þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.
Sigmundur og Bjarni tjáðu sig um virðisaukaskattkerfið á annan hátt þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.
„Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki,“ skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á vefsíðu sína fyrir þremur árum. Í frumvarpi til fjárlaga sem fjármálaráðherra kynnti í gær kemur fram að til standi að hækka virðisaukaskatt á matvæli úr 7 prósentum í 12 prósent. Sú ákvörðun að hækka er í andstöðu við markmið Sigmundar Davíðs fyrir þremur árum kæmist Framsókn í ríkisstjórn.

„Þetta er rangt og þetta verður að stöðva. Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær,“ sagði forsætisráðherra ennfremur í pistlinum sem birtist þann 8. ágúst 2011. Þá var Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu. Vísir fjallaði um málið á sínum tíma. Sigmundur Davíð sagði þá einnig:

„Í dag fékk ég staðfest eftir mjög áreiðanlegum heimildum að það sé raunverulega til umræðu í fullri alvöru innan ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á matvæli. Það eru skelfilegar fréttir. Almennur virðisaukaskattur er nú þegar sá hæsti í heiminum á Íslandi og skattar á almenning eru fyrir löngu komnir yfir þolmörk heimilanna.“

Reyndar var almennur virðisaukaskattur á Íslandi ekki sá hæsti í heiminum á þeim tíma en þó vissulega einn sá hæsti í heiminum. Hann verður það enn þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á efra virðisaukaskattsþrepinu.

Bjarni Benediktsson og Norðurlöndin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í þinginu árið 2009, þegar fjallað var um ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samylkingarinnar um að hækka efra virðisaukaskattsþrepið úr 24,5 prósentum í 25,5 prósent, að íslenskt skattaumhverfi væri sífellt meira að ríkjast umhverfinu á Norðurlöndum:

„Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um virðisaukaskattsfrumvarpið og gjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hún hefur kynnt okkur að hún vilji einkum líta til Norðurlandanna í sinni skattaframkvæmd. Við vitum sem er að þar er skattbyrðin sú hæsta í heiminum þannig að það boðar ekki gott. Nú erum við að fara að innleiða hugmyndir um að feta okkur inn á þá braut og við sjáum afrakstur þess í því máli sem við göngum nú til atkvæðagreiðslu um. Ísland er með hæsta virðisaukaskatt í heimi. Það er afleiðingin af því og það er sú braut sem ríkisstjórnin markar í sinni skattaframkvæmd.“

Þegar virðisaukaskattur annarra Norðurlanda er skoðaður kemur í ljós að eftir fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu hér á landi mun það verða enn líkara skattaumhverfinu í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Danmörk sker sig úr þegar það kemur að virðisaukaskatti, því neðra þrepið þar í landi er 0 prósent en flest allt fellur undir efra þrepið.

Samanburður á virðisaukaskatti á Norðurlöndunum

Efra þrepið á Íslandi verður 24% og neðra þrepið verður 12%. Matvæli falla undir neðra skattþrepið, auk ákveðinna ferða í ferðaþjónustunni og fleiri hluta.

Efra þrepið í Noregi er 25% og það neðra 15%. Matvæli falla undir neðra skattþrepið.

Efra þrepið í Svíþjóð er 25% og það neðra er 12%. Matvæli falla undir neðra skattþrepið auk þess sem ferðaþjónustan og veitingastaðir borga 12% virðisaukaskatt af sínum vörum og þjónustu fyrir utan áfengi.

Efra þrepið í Finnlandi er 24% og það neðra 14%, en matvæli falla undir neðra skattþrepið, auk dýrafóðurs og veitingastaða.

Efra þrepið í Danmörku er 25% og það neðra er 0%. Matvæli falla undir efra þrepið. Undir neðra þrepið falla dagblöð, ákveðnar tegundir af skipum, þjónusta við flugvélar og ýmislegt fleira.


Tengdar fréttir

Lægra þrep virðisaukaskatts hækkar upp í tólf prósent

Fjármálaráðherra kynnti breytingar á virðisaukaskattskerfinu samhliða nýjum fjárlögum. Efra þrepið lækkar niður í 24 prósent og hefur aldrei verið lægra. Verð á mat ætti að hækka en verð á stórum raftækjum ætti að lækka.

Gagnrýnir skattabreytingar: Bækur dýrari en flatskjáir ódýrari

Andri Snær Magnason rithöfundur gagnrýndir virðisaukaskattsbreytingar sem fjármálaráðherra kynnti í gær. Bækur hækka væntanlega í verði en flatskjáir lækka í verði. Bókaútgefundur og rithöfundar eru uggandi yfir stöðu lesturs á Íslandi.

Þurfa að selja eignir til að rétta stöðu ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson segir að ríkisstjórnin muni selja hlut ríksins í Landsbankanum á næstu tveimur árum, ef rétt verð fáist. Af orðum Bjarna við kynningu á fjárlögum ársins 2015 má merkja að lítið megi útaf bregða ef ríkissjóður eigi að vera hallalaus.

Matarskattur mun hækka um fimm prósentustig á næsta ári

Neðra þrep virðisaukaskatts hækkar úr sjö prósentum í tólf prósent á næsta ári, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem dreift var á Alþingi í gær. Efra þrep mun lækka úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Áætlað er að barnabætur hækki en skerðingarhlutfall aukist






Fleiri fréttir

Sjá meira


×