Innlent

„Eigum eftir að fá nokkur eldgos í vetur“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/auðunn
Svipaður gangur er í eldgosinu í Holuhrauni norðan Vatnajökuls líkt og verið hefur síðustu daga. Þá er skjálftavirkni það sömuleiðis en aðal skjálftavirknin er í Bárðarbungu auk þess sem að minni skjálftar eru við ganginn undir Dyngjujökli. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir allt benda til þess að annað gos sé í sjónmáli.

„Gosið hlýtur að fara að fjara út, en svo kemur bara annað. Við erum í gliðnunarhrinu og þá er þetta bara þannig að það kemur eldgos og svo fjarar það út og þá kemur annað eldgos. Þannig að við eigum eftir að fá nokkur eldgos í vetur,“ segir Ármann.

„Gosið er lítið og rólegt og einangrast við miðgíginn Baug,“ bætir Ármann við.

Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði segir að enn sé nokkur gangur í gosinu, svipað og verið hefur síðustu daga og ástandið þannig í jafnvægi.

Sömu sögu er að segja af sigi í Bárðarbungu, en askjan sígur um það bil 50 sentímetra á sólarhring.

Veðurstofan spáir hægri suðvestanátt og því er mengun vegna gossins líklegust á svæðinu við gosstöðina sjálfa og til norðausturs að Herðubreið í norðri og Kárahnjúkum í suðri. Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefsíðu Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×