Innlent

Skjálfti af stærð 5,4 stig í morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá gosstöðvunum í gær.
Frá gosstöðvunum í gær. Vísir/Vilhelm
Stór skjálfti af stærð 5,4 stig mældist á 2,9 kílómetra dýpi um 4,7 kílómetra suðaustur af Bárðarbungu upp úr klukkan sjö í morgun. Frá miðnætti til klukkan sjö mældust um 450 jarðskjálftar á svæðinu, langflestir á nyrðri hluta kvikugangsins.

Hinn virki hluti innskotsins nær frá gosstöðvunum í gær og um 4 kílómetra til suðurs inn á jökulinn. Aðeins nokkrir smáir skjálftar hafa verið staðsettir norður af gosstöðvunum og nú sjást þess engin merki að kvikugangurinn sé að lengjast til norðurs. Sterkustu jarðskjálftarnir á þessu svæði voru af stærð 2,7 stig klukkan 03:01 og 2,8 stig klukkan 06:19.

Nokkrir hafa mælst á brún Bárðarbunguöskjunnar, þeir sterkustu 4,5 stig klukkan 02:35 og 4,2 stig klukkan 06:18, báðir á norðurbrún. Skjálftinn upp úr klukkan sjö sem mældist 5,4 stig varð á suðurbrúninni. Margir atburðir af svipaðri stærð hafa gerst í kringum öskjuna undanfarna daga. Túlkunin er sú, að þeir tengist sigi í eldfjallinu vegna lækkunar í kvikuþrýstingi í kvikuhólfinu þar undir.

Nokkrir smáir skjálftar urðu kringum eldfjallið Öskju. Í heild má segja að engin markverð breyting hafi orðið á jarðskjálftavirkninni að því er kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×