Íslenski boltinn

Rolf Toft: Var góður í maganum í gær

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rolf Toft hefur komið vel inn í lið Stjörnunnar.
Rolf Toft hefur komið vel inn í lið Stjörnunnar. vísir/daníel
Rolft Toft, danski framherjinn í liði Stjörnunnar, var hetja liðsins í gær þegar það vann sögulegan sigur á pólska stórliðinu Lech Poznan, 1-0, í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta. Hann skoraði sigurmarkið á 48. mínútu.

Lech Poznan hafnaði í öðru sæti pólsku úrvalsdeildarinnar í fyrra, en til marks um styrkleika hennar, þá er vert að benda á 4-1 sigur meistaranna í Legía Varsjá á Celtic á þriðjudagskvöldið. Þar brenndu Varsjár-menn einnig af tveimur vítaspyrnum.

„Þetta var frábær sigur því þetta er alveg frábært lið. Það vill spila boltanum hratt, en við vorum skipulagðir og þeir áttu í vandræðum með að opna okkur,“ segir Rolf Toft í samtali við Vísi.

„Þeir eru betri en við, en í gær gekk allt upp og við lokuðum á þá. Þetta var alveg frábært. Stuðningsmennirnir voru magnaðir og sigurinn glæsilegur.“

Þjálfari Poznan kvartaði undan gervigrasinu í Garðabænum í gær og sagði Stjörnumenn ekki hafa viljað spila fótbolta. Toft býst við öðruvísi leik ytra.

„Þeir eru með stærri völl sem verður bleyttur þannig þeir geta spilað sinn bolta með stuttum sendignum. Stuðningsmennirnir þeirra eru rosalegir líka þannig þetta verður upplifun, en líka rosalega erfiður leikur. Við eigum samt möguleika vil ég meina,“ segir Daninn.

Toft kom til Stjörnunnar í síðasta mánuði til að leysa af samlanda sinn Jeppe Hansen. Toft byrjar vel. Hann fiskaði víti í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni gegn Motherwell, skoraði í fyrsta deildarleiknum gegn Fylki, skoraði jöfnunarmark á 86. mínútu í heimaleiknum gegn Motherwell og svo sigurmarkið í gær.

„Byrjunin er búin að vera frábær. Ég gæti ekki beðið um meira,“ segir Toft sem þurfti eins og frægt er orðið að fara á klósettið í framlengingunni gegn Motherwell í síðustu viku.

Hann þurfti ekki frá að hverfa í gær, heldur spilaði allar 90 mínúturnar án klósettferðar í miðjum leik.

„Ég var ekki jafnslæmur í maganum í gær. Þetta slapp til,“ segir Rolft Toft léttur áður en hann heldur á hádegisæfingu á Samsung-vellinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×