Íslenski boltinn

Stjarnan mun spila í Garðabænum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Jóhannsson í leik Stjörnunnar og Motherwell í gær.
Atli Jóhannsson í leik Stjörnunnar og Motherwell í gær. Vísir/Getty
Stjarnan mun leika gegn pólska liðinu Lech Poznan á heimavelli sínum í Garðabæ á fimmtudagskvöldið.

Liðin mætast þá í fyrri leik sínum í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en Stjarnan gerði sér lítið fyrir og sló Motherwell úr keppninni í gær.

FH komst einnig áfram og mætir sænska liðinu Elfsborg í næstu umferð en fyrri leikurinn fer fram ytra á fimmtudaginn.

Í fyrra komst Breiðablik áfram í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en þurfti að færa leikinn á Laugardalsvöll þar sem að lið Aktobe frá Kasakstan vildi ekki samþykkja að spila á Kópavogsvelli.

Gunnar Gylfason hjá KSÍ staðfesti hins vegar í samtali við Vísi í dag að íslensku liðin þyrftu ekki lengur að fá samþykki gestaliðsins á þessu stigi keppninnar.

„KSÍ er með samkomulag við UEFA um að íslensku liðin geti spilað á sínum heimavöllum í fyrstu þremur umferðum forkeppninnar,“ sagði Gunnar.

Almar Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, staðfesti í samtali við Vísi í dag að liðið muni spila gegn Lech Poznan á Samsung-vellinum klukkan 18.30 á fimmtudagskvöld.

Uppselt var á leikinn gegn Motherwell í gær en rúmlega þúsund manns voru á leiknum, þar af um 150 Skotar.


Tengdar fréttir

Von er á einni bestu stuðningsmannsveit Evrópu

Með sigri gegn Motherwell í gær komst Stjarnan í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar en næsti mótherji er Lech Poznan. Stuðningsmenn liðsins eru gríðarlega ástríðufullir og verður gaman að sjá hversu margir mæta til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×