Kristín segir að stílisti tímaritsins hafi sett sig í samband við þær systur og beðið þær um að senda þeim hálsmen út. „Það var frekar stuttur fyrirvari á þessu öllu en við sendum þeim festar og þeim leist vel á. Þetta er í rauninni frekar súrrealískt, enda er þetta virkilega stórt blað þó svo að þetta sé kannski ekki beint fyrsta tímaritið sem ég lugga í á kaffihúsi. En þetta er frábært fyrir merkið og mjög gaman að sjá forsíðufyrirsætuna, leikkonuna Bellu Thorne, með festarnar okkar,“ segir Kristín, sem varð sér út um eintak af blaðinu fyrr í vikunni.
„Ég kom við í Eymundsson og fletti í gegnum blaðið. Þetta var mjög skemmtilegt, mann langaði næstum því að hnippa í næsta mann í Eymundsson og benda á að maður væri í blaðinu,“ segir Kristín og hlær.

Twin Within hefur notið vinsælda erlendis og hafa hálsmenin til að mynda ratað í verslanir víða í Bandaríkjunum, London, Japan og Seattle. Líklegt er að Singapúr fái einnig að kynnast línunni en Kristín flytur þangað á allra næstu dögum. „Maðurinn minn er að fara þangað í mastersnám svo ég skelli mér með ásamt dóttur okkar. Þar ætla ég að vera á fullu í festagerð.“