Erlent

Segja Írakstríðið ekki hafa verið þess virði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Samkvæmt nýrri könnun sem bandarísku fjölmiðlarnir CBS og New York Times stóðu fyrir á dögunum telja einungis 18 prósent Bandaríkjamanna að innrásin í Írak árið 2003 og stríðsreksturinn sem henni fylgdi hafi verið þess virði.

Talið er að innrásin hafi kostað 4.500 bandaríska hermenn lífið, áætlað er að 500.000 Írakar hafi fallið í átökunum og kostnaðurinn við stríðsreksturinn hleypur á trilljörðum dala.

Þrír fjórðu hlutar bandarísku þjóðarinnar segja innrásina hins vegar ekki hafa borgað sig og er það hæsta hlutfall svarenda sem mælst hefur fram til þessa. Um 67 prósent Bandaríkjamanna töldu innrásina ekki hafa verið þess virði í nóvember 2011, skömmu áður en síðustu hermennirnir voru kallaðar til baka, og 45 prósent í ágústmánuði 2003, einungis fimm mánuðum eftir að innrásin hófst.

Hlutfall þeirra sem telja hernaðarinngrip þjóðar sinnar í Írak hafa verið glapræði er ívið hærra meðal demókrata en repúblikana, 79 prósent demókrata gegn 63 prósentum repúblikana.

Talið er að uppgangur ISIS á undanförnum vikum og ólgan sem nú ríkir í landinu eigi stóran þátt í að magna upp óánægju Bandaríkjamanna með hlutverk sitt í ófriðnum sem staðið hefur yfir í landinu nær linnulaust í rúman áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×