Erlent

Bandaríkin ásaka Sýrlendinga um loftárásir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Bandarísk stjórnvöld ásaka sýrlenska ráðamenn um að hafa fyrirskipað loftárásir í vesturhluta Íraks nú á þriðjudag til að stöðva framgöngu ISIS-samtakana sem ráða lögum og lofum í norðurhluta landsins.

Samtökin hafa stutt dyggilega við bakið á uppreisnarmönnum í Sýrlandi sem reynt hafa á undanförnum árum að steypa ríkisstjórn Bashar Al-Assad af stóli. Talið er að átökin í landinu hafi kostað 160 þúsund manns lífið frá því í mars 2011.

Hvíta húsið hefur sagt að inngrip sýrlenskra stjórnvalda í Írak muni ekki verða til þess að hægja á framgangi samtakana. „Lausnin fellst ekki í blóðsúthellingum af hálfu stjórnar Al-Assad, sem lengi hélt hlífðarskildi yfir samtökunum, heldur með því að styrkja írösk stjórnvöld til að takast á við hættuna heima fyrir,“ er haft eftir talskonu stjórnvalda.

Fulltrúar Bandaríkjastjórnar segja að írönsk yfirvöld fljúgi nú fjarstýrðum eftirlitsdrónum yfir átaksvæðunum í norðurhluta Íraks. Talið er að þeir séu ekki vopnum búnir þrátt fyrir að það hafi ekki fengist staðfest. Íranar hafa þó sent hermenn til landsins þannig að ekki er talið ólíklegt að íranskir herinn kunni einnig að herja á uppreisnarmennina úr lofti.

Það verður að teljast til tíðinda að Bandaríkin og Íran hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta í því að tryggja stöðuleika í Írak. Íranar vilja áframhaldandi áhrif shía múslima í landinu á meðan Bandaríkjamenn hafa lengi krafist breytinga í lýðræðisátt á stjórnkerfi landsins.

Einhverjar formlegar viðræður hafa átt sér stað milli Íran og Bandaríkjanna í tengslum við þróun ástandsins í Írak á síðustu vikum en Barack Obama hefur ítrekað að hann muni ekki fara að fordæmi kollega síns Hassan Rouhani og hefja beina hernaðarlega íhlutun í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×